Lífið

Samdi við breskan barnabókarisa

Birgitta Sif hefur samið við barnabókarisann Walker Books um útgáfu á sögu sinni Oliver.
Birgitta Sif hefur samið við barnabókarisann Walker Books um útgáfu á sögu sinni Oliver.
„Lokasýningin mín frá Anglia Ruskin-háskólanum var í febrúar og eftir hana var mér boðinn samningur," segir Birgitta Sif, sem hefur landað stórum bókasamningi við Walker Books, einn stærsta sjálfstæða barnabókaútgefanda í heimi.

Birgitta Sif ólst að mestu upp erlendis, í Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkjunum, en dvaldi á Íslandi á sumrin. Hún kláraði framhaldsskólanám í Bandaríkjunum og útskrifaðist með BA-gráðu í teikningu og hönnun frá Cornell University í New York.

„Eftir námið fór ég að vinna við uppsetningu á blöðum og tímaritum í New York. Mér fór svo að lítast vel á að hanna barnabækur og byrjaði að spreyta mig sjálf," segir Birgitta, sem ákvað að sækja námskeið í barnabókateikningu við Anglia Ruskin-háskólann í Cambridge.

Þegar námskeiðinu lauk héldu útskriftarnemendur lokasýningu á verkum sínum. Þar sýndi Birgitta meðal annars teikningar sínar af sögunni Oliver, sem heillaði starfsmenn Walker Books. „Bókin fjallar um Oliver, lítinn strák sem finnst hann vera öðruvísi.

Oliver lendir svo í ýmsum ævintýrum," segir hún. Þetta verður fyrsta bók Birgittu hjá Walker Books og er áætlað að hún komi út á næsta ári, en Birgitta gerði samning um útgáfu tveggja bóka hjá stórfyrirtækinu. Hægt er að skoða teikningar hennar á vefsíðunni www.birgittasif.com. - ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.