Innlent

Íhuga að sekta sóða á staðnum

Það er dýrt að hreinsa Reykjavík og því freistandi að reyna sænsku leiðina til að stemma stigu við sóðaskap.
mynd/daníel
Það er dýrt að hreinsa Reykjavík og því freistandi að reyna sænsku leiðina til að stemma stigu við sóðaskap. mynd/daníel
Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra og nú staðgengill borgarstjóra, segir að sú hugmynd hafi verið rædd hjá borginni að sekta menn á staðnum fyrir slæma umgengni. Kostnaður við að hreinsa Reykjavíkurborg hleypur á hundruðum milljóna króna á ári.

„Við höfum haft áhyggjur af því að kostnaðurinn við að hreinsa borgina fari stöðugt hækkandi,“ segir Regína. „Umfangið hefur aukist en jafnframt höfum við þurft að skera niður svo vissulega hefur það verið rætt hvort við gætum farið út í eitthvað svipað og gerist annars staðar, til dæmis í Svíþjóð. Málið er ekki komið á neitt lokastig, það hefur til dæmis ekki verið kynnt í borgarráði.“

Samkvæmt nýrri lagabreytingu í Svíþjóð getur lögreglan sektað á staðnum hvern þann sem staðinn er að því að henda rusli á götuna. Sektin nemur 14.400 íslenskum krónum. Hér á landi er sóðaskapur sem þessi brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkur og tekur lögreglan skýrslu af hverjum þeim sem hún stendur að verki. Það er síðan löglærður fulltrúi lögreglunnar sem ákveður sektina en ef ekki er staðið í skilum fer málið fyrir dóm.

Fimm sinnum, það sem af er þessu ári, hefur lögreglan haft afskipti af mönnum fyrir sóðaskap sem er einu tilviki fleira en í fyrra.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×