Innlent

Telja öryggisbrest í áfengisrannsókn

Óskað er eftir upplýsingum um tuttugu þúsund skjólstæðinga í áfengismeðferð SÁÁ vegna nemendaverkefnis.
Óskað er eftir upplýsingum um tuttugu þúsund skjólstæðinga í áfengismeðferð SÁÁ vegna nemendaverkefnis.
Persónuvernd segist að svo stöddu ekki geta samþykkt umsókn um aðgang að gögnum um yfir tuttugu þúsund einstaklinga sem fengið hafa áfengismeðferð SÁÁ á Vogi frá árinu 1980.

Um er að ræða verkefni tveggja háskólanema í umsjón starfsmanns á rannsóknarstöð í heilbrigðisfræði. „Í umræddum sjúkraskrám Vogs eru viðkvæmar persónuupplýsingar um alla sem leituðu þangað á árabilinu 1980 til og með 2009, rúmlega 20 þúsund manns. Af hálfu umsækjenda hefur komið fram að hvorki sé fyrirhugað að leita eftir samþykki þeirra sem eru á lífi né fræða þá um vinnsluna," segir í umfjöllun Persónuverndar.

Tilgangur rannsóknarinnar er sagður tvíþættur: annars vegar að lýsa fjölda og auðkennum þeirra sem voru á Vogi með tilliti til aldurs, kyns, komuástæðu og sjúkdómsgreiningar og hins vegar að bera saman dánartíðni þessa hóps við dánartíðni almennt í þjóðfélaginu.

Sjúkrahúsið á Vogi gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við rannsóknina. Það sama gildir um Hagstofu Íslands og vísindasiðanefnd. Persónuvernd segir hins vegar að öryggislýsingu í umsókninni sé áfátt. Meta þurfi hvort unnt sé að svara rannsóknarspurningunni án þess að miðla viðkvæmum persónuupplýsingum til óviðkomandi aðila. „Þegar það mat liggur fyrir verður tekin ákvörðun um hvort skilyrði séu til að veita leyfi," segir Persónuvernd.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×