Viðskipti innlent

Nær 4.000 án vinnu í ár eða lengur

Um 8,5 prósent vinnufærs fólks voru án vinnu á öðrum fjórðungi ársins.
Um 8,5 prósent vinnufærs fólks voru án vinnu á öðrum fjórðungi ársins. Mynd/Vilhelm
Fólki sem verið hefur án atvinnu í eitt ár eða lengur fjölgar verulega milli ára. Um 3.900 höfðu verið atvinnulausir svo lengi að meðaltali á öðrum ársfjórðungi 2011, en á síðasta ári voru 2.700 í þeirri stöðu, að því er fram kemur í samantekt Hagstofu Íslands.

Á öðrum ársfjórðungi var tæplega fjórðungur þeirra, sem eru án atvinnu, búinn að vera atvinnulaus í ár eða lengur. Á sama tíma í fyrra var hlutfallið 16,9 prósent.

Að meðaltali voru 15.800 án atvinnu og í atvinnuleit á öðrum ársfjórðungi 2011. Það eru um 8,5 prósent vinnufærs fólks samkvæmt Hagstofunni. Þetta er um 400 færri án vinnu en á sama tímabili í fyrra.

Atvinnuleysið er mest meðal fólks á aldrinum 16 til 24 ára, þar sem það er 18,6 prósent. Hjá fólki á aldrinum 24 til 54 ára eru 6,4 prósent vinnufærra án atvinnu, og 5,4 prósent fólks á aldursbilinu 55 til 74 ára.

Atvinnuleysi á öðrum fjórðungi ársins var 10,2 prósent á höfuðborgarsvæðinu, en 5,3 prósent utan þess.

- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×