Innlent

Hætt við úttekt eftir mótmæli starfsfólks

Bæjarráðið var óánægt með starfslokasamninga hjá Félagsþjónustunni og samþykkti úttekt á starfsumhverfinu þar. Fulltrúar starfmanna kváðust á móti því og úttektin var slegin af. Fréttablaðið/stefán
Bæjarráðið var óánægt með starfslokasamninga hjá Félagsþjónustunni og samþykkti úttekt á starfsumhverfinu þar. Fulltrúar starfmanna kváðust á móti því og úttektin var slegin af. Fréttablaðið/stefán
Andstaða starfsmanna varð til þess að hætt hefur verið við að gera úttekt á Félagsþjónustu Kópavogs.

Bæjarráð samþykkti í febrúar á þessu ári að fá Líf og sál ehf. til að gera „greiningu á starfsumhverfi Félagsþjónustu Kópavogsbæjar," eins og segir í fundargerð ráðsins.

Undir sama lið á fundi bæjarráðs var lagður fram og samþykktur starfslokasamningur við Hildi Jakobínu Gísladóttur, yfirmann fjölskyldudeildar. Áður hafði Hildur verið fjarverandi frá Félagsþjónustunni í nokkra hríð á launum. Ástæðan var samskiptaörðugleikar Hildar og Aðalsteins Sigfússonar félagsmálastjóra. Fleiri starfsmenn Félagsþjónustunnar höfðu á misserunum þar á undan hætt vegna samskiptaörðugleika við félagsmálastjórann. Gerður var starfslokasamningur við einn þeirra.

„Okkur þótti ástæða til að skoða þetta því bæjarráðið er náttúrulega ekki sérstaklega hresst með það að það séu gerðir starfslokasamningar við starfsfólk. Við vorum ekki sátt við það," útskýrir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðríður segir ætlunina hafa verið þá að Líf og sál tæki út samskipti og starfsanda hjá Félagsþjónustunni. „Þegar Líf og sál heyrði að það væru deildar meiningar meðal starfsmanna um að þessi úttekt færi fram þá báðust þeir undan verkinu," segir Guðríður sem þá átti fund með fulltrúum starfsmanna Félagsþjónustunnar.

„Starfsfólkið upplifði þetta sem vantraust. Líf og sál sagði okkur að vegna þess að það væri ekki sátt um úttektina meðal starfsmanna þá sæju þeir ekki tilganginn með henni," segir Guðríður sem kveður úttekt af þessu tagi þar með úr sögunni.

Að sögn Guðríðar skilur hún það sjónarmið starfsmannanna að það hafi verið sérkennilegt að bæjarráðið tæki einhliða ákvörðun um úttektina og kæmi þannig með virkum hætti inn í starfsmannamálin. „Auðvitað hefðum við átt að setjast niður með starfsfólki á fyrri stigum málsins og fara yfir málin. Ég held að það sé alveg rétt að það sé ágætur starfsandi á Félagsþjónustunni og hef engar áhyggjur af því." gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×