Erlent

Þernan segir sögu sína opinberlega

Nafissatou Diallo segir sögu sína í nýjasta tölublaði Newsweek.
Nafissatou Diallo segir sögu sína í nýjasta tölublaði Newsweek. Mynd/AP
Þernan sem ásakað hefur Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um nauðgun kom um helgina fram opinberlega og sagði fjölmiðlum sögu sína. Það segist hún gera því hún vilji sjá Strauss-Kahn fara í fangelsi.

Ákvörðun þernunnar, sem heitir Nafissatou Diallo, þykir áhættusöm, að sögn lögfræðinga. Viðtölin við tímaritið Newsweek og ABC-sjónvarpsstöðina veita henni tækifæri til að auka trúverðugleika sinn en verði hún uppvís að misfærslum munu verjendur Strauss-Kahn eflaust nýta sér það óspart.

Diallo segist ekki hafa vitað hver Strauss-Kahn var fyrir árásina. Hann hafi ráðist að henni eins og „brjálæðingur“ og neytt hana til að veita sér munnmök þrátt fyrir áköf mótmæli. Þá segist hún hafa óttast um líf sitt þegar hún heyrði í sjónvarpinu að Strauss-Kahn væri líklegur til að verða næsti forseti Frakklands.

Viðtölin við Diallo koma út nú þegar málið gegn Strauss-Kahn er í lausu lofti í kjölfar þess að efasemdir vöknuðu um trúverðugleika hennar hjá ákæruvaldinu í New York. Hún varð uppvís að rangfærslum um fortíð sína auk þess sem ósamræmis gætti í frásögn af hegðun hennar eftir árásina. Í viðtalinu viðurkenndi Diallo að hafa sagt rangt frá fortíð sinni þegar hún kom til Bandaríkjanna.

Lögmenn Strauss-Kahn kölluðu viðtölin óviðeigandi fjölmiðlasirkus sem settur væri á svið til að hafa áhrif á almenningsálitið.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×