Innlent

Bíða gagna frá Sjálfstæðisflokknum

Starfsmaðurinn hafði aðstöðu í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins.
Starfsmaðurinn hafði aðstöðu í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Pjetur
Lögregla bíður nú gagna frá Sjálfstæðisflokknum áður en saksóknari tekur afstöðu til kæru sem flokkurinn lagði fram vegna meints fjárdráttar sem kom upp hjá Norðurlandaráði í vor, segir Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Málið var kært til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, en greint var frá því í fjölmiðlum að grunur léki á að það fé sem starfsmaður Norðurlandaráðs er grunaður um að hafa dregið sér sé á annan tug milljóna króna.

Eins og fram hefur komið er starfandi innan Norðurlandaráðs svokallaður íhaldshópur sem er samstarfsvettvangur hægri manna á Norðurlöndum. Undanfarin ár hefur starfsmaður hópsins verið íslenskur með aðstöðu í Valhöll. Hann lét af störfum fyrr á árinu þar sem Finnar áttu að taka við keflinu.

Við mannaskiptin vaknaði grunur um að ekki væri allt sem skyldi varðandi fjármál hópsins. Fyrirspurnir frá Finnlandi leiddu til þess að bókhald var skoðað og vísbendingar bentu til þess að starfsmaðurinn hefði dregið sér fé.

Maðurinn hélt til útlanda eftir að grunurinn vaknaði. Ekki er vitað hvort hann dvelur erlendis eða hér á landi um þessar mundir.

Umræddur maður hefur ekki verið kallaður til yfirheyrslu þar sem rannsóknin er ekki hafin, að sögn Guðmundar. Hann segist ekki geta tjáð sig um innihald þeirra gagna sem beðið sé frá Sjálfstæðisflokknum.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×