Innlent

Hætt hjá Bankasýslu ríkisins

Elín Jónsdóttir
Elín Jónsdóttir
Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, hefur sagt upp störfum og verður staða hennar auglýst til umsóknar í næstu viku. Hún hafði gegnt stöðu forstjóra allt frá því að stofnunin tók til starfa í upphafi árs 2010.

Bankasýslan fer með eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, Til dæmis Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka auk fimm sparisjóða á landsbyggðinni.

Í tilkynningu frá bankasýslunni segir Elín að árin í starfi hafi verið viðburðarík og fram undan séu stór og aðkallandi verkefni. Hæst beri sölu á eignarhlut ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum að hluta til eða að öllu leyti.

„Ég hef ákveðið að skipta um starfsvettvang á næstunni og tel tímasetninguna rétta nú þannig að nýjum forstjóra verði gefið færi á að móta það ferli,“ segir Elín. Ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar í gær.

Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar, sagðist harma brotthvarf Elínar úr starfi, en þakkaði samstarfið.

Í skýrslu Bankasýslunnar frá 13. júlí síðastliðnum kom fram nokkur gagnrýni á fjármögnun stofnunarinnar. Þar segir að til að sinna fyrirliggjandi verkefnum hefði stofnunin þurft að byggjast upp á síðasta ári, en fjárskortur hafi torveldað það.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×