Innlent

Frjókorn mældust vel yfir meðallagi

Mælingar í Reykjavík sýndu að magn frjókorna í loftinu var vel yfir meðallagi. nordicphotos/getty
Mælingar í Reykjavík sýndu að magn frjókorna í loftinu var vel yfir meðallagi. nordicphotos/getty
Frjókorn í Reykjavík mældust vel yfir meðallagi í júlímánuði og mældust um 2.000. Er mánuðurinn í hópi þriggja júlímánaða þegar fjöldi frjókorna hefur mælst svo mikill, en í fyrra urðu þau tæplega 4.000 og sumarið árið 1991 fóru frjókorn í um 2.500. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Náttúrustofnun Íslands.

Heildarfjöldi frjókorna á Akureyri í síðasta mánuði mældist í meðallagi, eða um 780. Grasfrjó voru færri en í meðalári, á svipuðu róli og sumurin 2006 og 2010. Það sem af er sumri hafa rúmlega tuttugu prósent grasfrjóa meðalárs mælst á Akureyri og eiginlegt hámark er enn ekki komið fram. Eins og í fyrra eru því miklar líkur á því að ágúst verði aðalgrasmánuður sumarsins fyrir norðan. Þar ræður þó mestu hvort þurrir vindar ríkja, en vætutíð og þokuloft hamla dreifingu frjókorna. Þannig fylgir jafnan lítið magn frjókorna með hafgolunni og köldum, rökum norðanáttum.

Í tilkynningunni segir að þótt gras sé víða tekið að sölna séu nokkrar grastegundir enn í blóma og dreifi frjókornum. Eru það einkum túngrös, eins og húsapuntur, vallarfoxgras og língresi. Uppspretta grasfrjóa er því enn til staðar.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×