Innlent

Tvær vikur í leikskólaverkfall

Nú stefnir í að leikskólum verði lokað 22. ágúst. Næsti samningafundur leikskólakennara og sveitarfélaganna verður ekki fyrr en næsta mánudag. Fréttablaðið/valli
Nú stefnir í að leikskólum verði lokað 22. ágúst. Næsti samningafundur leikskólakennara og sveitarfélaganna verður ekki fyrr en næsta mánudag. Fréttablaðið/valli
Virkja þarf verkfallsnefnd leikskólakennara því að öðru óbreyttu eru tæpar tvær vikur uns þeir leggja niður vinnu, eftir að fundi í kjaradeilu kennaranna og sveitarfélaganna lauk í Karphúsinu í gær, án samkomulags.

Þetta kemur fram í máli Haralds Freys Gíslasonar, formanns Félags leikskólakennara. Hann segir fundinn í gær hafa verið að ýmsu leyti jákvæðan og að ágætlega gangi á sumum sviðum samningagerðar.

„En stærsta málið, ellefu prósenta launaleiðrétting, stendur enn út af. Þrátt fyrir að við höfum dregist aftur úr í launum um mun meira,“ segir Haraldur.

Hann segir að ríkissáttasemjari hafi lagt til í gær að beðið yrði í eina viku áður en næsti fundur fer fram, það er til næsta mánudags. Þangað til eigi deiluaðilar að heyra í sínu fólki og íhuga stöðuna.

Haraldur efast sjálfur ekki um hvernig landið liggur: „Við getum alls ekki sætt okkur við þetta.“

Leikskólakennarar hafa samþykkt að fara í verkfall 22. ágúst með 96,1 prósents atkvæða, náist ekki samningar við sveitarfélögin. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×