Innlent

Töpuðu tugum hrossa á afrétt

stóðréttir Ekki má hrófla við hrossum á afrétti, nema með leyfi, þar til smalað er í stóðréttir á haustinfréttablaðið/heiða.is
stóðréttir Ekki má hrófla við hrossum á afrétti, nema með leyfi, þar til smalað er í stóðréttir á haustinfréttablaðið/heiða.is
„Það er mjög slæmt ef verið er að hamast í stóðhrossum á afrétti.“

Þetta segir Anna Margrét Jónsdóttir sem sæti á í landbúnaðarnefnd Blönduóssbæjar. Fimm hestamenn voru á ferð með um sextíu hross í gegnum afréttarlönd í Austur-Húnavatnssýslu og Staðarafrétt. Mennirnir misstu öll hrossin, nema þau sem þeir riðu, og blönduðust þau saman við stóðhross sem rekin höfðu verið á afréttinn. Þeir freistuðu þess að skilja sín hross frá afréttarhrossunum og tókst að ná allflestum, að sögn Önnu Margrétar. Slíkt er hins vegar bannað samkvæmt lögum um afréttarmál, fjallskil og fleira þar sem segir að enginn megi smala afrétt né gera afréttarbúpeningi ónæði nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.

„Þarna er mikið um folaldshryssur og það er hætta á að folöld fælist undan þeim,“ útskýrir Anna Margrét. „Ef verið er að róta mikið í stóðinu getur það einnig gerst að tryppahópar taki á rás og fari um langan veg. Flutningur þeirra til baka er mjög kostnaðarsamur.“

Fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu og landbúnaðarnefnd Blönduóssbæjar sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem minnt var á ofangreind lög.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×