Innlent

Veggjakrotarar nást í fimmta hvert sinn

Tilkynningar um brot gefa ekki endilega rétta mynd af raunverulegu umfangi þeirra. fréttablaðið/gva
Tilkynningar um brot gefa ekki endilega rétta mynd af raunverulegu umfangi þeirra. fréttablaðið/gva
Tilkynningum um veggjakrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað á undanförnum árum. Árið 2007 var tilkynnt um 399 brot en árið 2010 voru tilkynningarnar 102. Það sem af er þessu ári hefur verið tilkynnt um 58 brot.

Hinir seku nást að jafnaði í um fimmta hverju tilviki. Árlega er ákært að jafnaði í færri en tíu málum. Enn færri málum lýkur með sektargerð, að sögn Snorra Arnar Árnasonar, félagsfræðings hjá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Snorri segir að hafa þurfi í huga að tilkynningar um brot til lögreglu gefi ekki endilega rétta mynd af raunverulegu umfangi þeirra. „Ýmislegt getur haft áhrif á fjölda tilkynninga, eins og ef hleypt er af stokkunum sérstökum átaksverkefnum í tengslum við veggjakrot, almenn vitund borgara og hvati til að fá tjón bætt. Almenn útbreiðsla veggjakrots getur hugsanlega fylgt sveiflum innan þeirrar menningar þar sem athæfið þrífst.“

Sektir eða bótagreiðslur vegna veggjakrots geta numið allt frá 20 þúsundum króna upp í rúmlega 100 þúsund. Algengt viðmið er að sektir nemi um helmingi andvirðis skemmdanna. Snorri bendir á að í hverju máli geti nokkrir verið kærðir fyrir sama brotið auk þess sem sumir sakborningar geti komið við sögu í fleiri en einu máli. Hann tekur fram að erfitt sé að gefa glögga mynd af fjölda eða umfangi sekta vegna veggjakrots þar sem sakborningar geti átt önnur brot að baki. Sektarupphæðir séu þess vegna ákvarðaðar með tilliti til fleiri brota.

Árið 2008 var sérstakt átak á vegum Reykjavíkurborgar til að stemma stigu við veggjakroti. Var það skráð og myndað með skipulögðum hætti frá maí til októbermánaðar. Í ljós kom að krotað hafði verið á 42 þúsund fermetra. Kostnaður borgarinnar vegna veggjakrots það ár var 155 milljónir króna.

Í fyrra nam kostnaður borgarinnar vegna veggjakrots 44 milljónum króna en í ár er kostnaðurinn áætlaður 26 milljónir samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdasviði.

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×