Innlent

Athygli kynnir ESB á Íslandi

Valþór Hlöðversson
Valþór Hlöðversson
Evrópusambandið hefur valið fyrirtæki til að sjá um kynningar- og upplýsingaskrifstofu sambandsins á Íslandi.

Það er Media Consulta í Þýskalandi og íslenska fyrirtækið Athygli sem fá verkefnið í sameiningu, til tveggja ára. Samningurinn hljóðar upp á 700.000 evrur á ári, eða um 115 milljónir króna.

Tilgangur kynningarskrifstofunnar er meðal annars að auka við þekkingu og skilning Íslendinga á ESB og á umsóknarferlinu, og að kynna hugsanleg áhrif af inngöngu landsins í sambandið.

Valþór Hlöðversson, framkvæmdastjóri Athygli, er ánægður með að fá verkefnið og segir að skrifstofan verði væntanlega opnuð með haustinu. Hann þvertekur fyrir að þaðan verði rekinn áróður.

„Nei, öðru nær. Það er lögð mikil áhersla á það í útboðsgögnum að þarna sé verið að safna saman fagfólki sem er fært um að miðla óhlutdrægum upplýsingum um kosti og galla ESB og efna til samræðu við fólkið í landinu. Annars hefðu menn bara notað sendiskrifstofu ESB í þetta, ef þetta hefði átt að vera áróður,“ segir hann.

Ellefu buðu í verkefnið en nokkrir hættu við og sögðu fjárveitinguna of nauma. Fimm umsækjendur munu hafa verið eftir í ferlinu þegar valið var úr.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×