Tónlist

Fyrsta poppstjarna dubstep-kynslóðarinnar

Á meðal þeirra sem eru tilnefndir til Mercury-verðlaunanna í ár er breska söngkonan Katy B, en fyrsta platan hennar, On a Mission, hefur selst vel og fengið frábæra dóma. Trausti Júlíusson skoðaði Katy.

Þó að breska söngkonan Katy B sé ekki nema 22 ára gömul og hafi verið að senda frá sér sína fyrstu plötu þá er hún búin að vera að syngja í nokkur ár. Hún kemur úr dubstep/garage kreðsum Lundúnaborgar og vakti fyrst athygli þegar hún söng lagið Tell Me inn á plötu með DJ NG árið 2006. Nýlega var tilkynnt að platan hennar, On a Mission, væri tilnefnd til hinna virtu Mercury-verðlauna.

Píparadóttir frá PeckhamKaty B (sem einnig hefur notað nafnið Baby Katy) heitir réttu nafni Kathleen Brien. Hún er fædd og uppalin í Peckham-hverfinu í Suður-London og er dóttir pípara og bréfbera.

Eins og margar fleiri breskar poppstjörnur síðustu ára (Adele, Amy Winehouse, Katie Melua…) þá gekk Katy í BRIT-skólann í Croydon, en hann er ætlaður ungu hæfileikafólki í tónlist og öðrum skapandi greinum.

Í fyrra kláraði Katy líka tónlistarnám við Goldsmiths-háskólann, en um svipað leyti kom fyrsta smáskífan hennar, Katy on a Mission, út. Hún var unnin af dubstep-kempunni Benga og kom út á vegum útvarpsstöðvarinnar Rinse FM. Hér fyrir ofan má sjá myndbandið við lagið.

Katy on a Mission náði 5. sæti breska smáskífulistans og næsta litla platan hennar, Lights on, komst í 4. sæti. Í því lagi syngur Ms Dynamite með Katy, en hún er ekki ókunn Mercury-verðlaununum, fékk þau árið 2002 fyrir plötuna A Little Deeper. Í apríl síðastliðnum kom svo fyrsta stóra plata Katy B, On a Mission, út á vegum Columbia-útgáfurisans.

Ferskt nútímapoppOn a Mission er meðal annars unnin með fyrrnefndum Benga, en líka með DJ Zinc og Geeneus. Tónlistin á henni er fjölskrúðugt danspopp undir áhrifum frá garage, dubstep og drum & bass-tónlist.

Katy er fín söngkona og platan hennar er ferskt og velkomið innlegg í vinsældapoppið. Hún hefur selst vel, fór beint í 2. sæti breska listans. Þess vegna hefur Katy verið kölluð fyrsta poppstjarna dubstep-kynslóðarinnar. Platan On a Mission hefur fengið fína dóma bæði í bresku pressunni og miðlum eins og Pitchforkmedia sem gaf henni 8,1 í einkunn. Enn sem komið er er Katy B aðallega þekkt í heimalandinu, en Mercury-tilnefningin gæti breytt því.

Þegar maður hlustar á On a Mission þá kemur sænska poppstjarnan Robyn upp í hugann. Bæði Katy B og Robyn búa til flott nútímapopp. Robyn er kannski svalari týpa og á sér lengri sögu, en tónlistarlega er Katy síst verri. On a Mission er flott plata. Full af smellum. Það verður gaman að sjá hvernig henni reiðir af í samkeppninni við Adele, Önnu Calvi, PJ Harvey, James Blake, Elbow, Metronomy og alla hina sem eru tilnefndir til Mercury-verðlaunanna í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×