Innlent

Ríkissjóður fái tíu til ellefu milljarða króna í sölu og arð

Landspítalinn fór rúmlega 19 milljarða fram úr fjárheimildum á 6 ára tímabili, frá 2003 til 2009. Það nemur 9 prósenta framúrkeyrslu.
fréttablaðið/hari
Landspítalinn fór rúmlega 19 milljarða fram úr fjárheimildum á 6 ára tímabili, frá 2003 til 2009. Það nemur 9 prósenta framúrkeyrslu. fréttablaðið/hari
Gert er ráð fyrir að afla 10 til 11 milljarða á næsta ári með sölu ríkiseigna og arðgreiðslum úr þeim fyrirtækjum sem ríkið á hlut í. Þetta mun, gangi það eftir, verða meginhluti þeirrar tekjuaukningar sem ríkisstjórnin hyggur á; en alls er gert ráð fyrir 14 milljörðum króna í nýjar tekjur. Skorið verður niður um sömu upphæð og því stoppað upp í alls 28 milljarða af fjárlagagatinu.

Meðal annarra tekna sem reiknað er með er hækkun veiðileyfagjalds, en gert er ráð fyrir að það skili sjö milljörðum í stað þeirra 4,5 sem áður hafði verið reiknað með. Þar með bætast 2,5 milljarðar við fyrri áætlanir. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur einnig sagt að skattar á banka og stóriðju verði hækkaðir.

Á árunum 2009 til 2011 hafa ríkisútgjöld dregist saman um 121,4 milljarða króna. Það stendur undir 58,6 prósentum af bættri fjárhagsstöðu ríkisins, en á sama tíma hafa tekjur ríkisins aukist um 85,9 milljarða króna. Nýjar tekjur á árinu 2011 námu 11 milljörðum króna.

Ef rýnt er í ríkisreikninga fyrri ára kemur í ljós að ríkisreksturinn bólgnaði út skömmu fyrir hrun. Árið 2006 námu heildarútgjöld ríkisins rúmum 340 milljörðum króna. Árið 2007, þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við, námu þau tæpum 398 milljörðum króna. Sú upphæð var rúmir 467 milljarðar árið 2008 og nam síðan tæpum 569 milljörðum króna árið 2009, en það ár tók ríkisstjórn Samfylkingar og VG við.

Ef rýnt er í einstaka málaflokka sést að viðtekin venja var að fara fram úr fjárheimildum víða í ríkiskerfinu. Þannig fóru heilbrigðisstofnanir á landinu tæpa 33 milljarða fram úr fjárheimildum á árabilinu 2003 til 2009.

Stjórnarflokkarnir hafa mismunandi áherslur í tekjuöflun og um það var tekist á sameiginlegum þingflokksfundi á mánudag. Fallið var frá breytingum á virðisaukaskattskerfinu og ákveðið að afla tekna með sölu ríkiseigna.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×