„Við höfum lengi fylgst með tækniumfjöllun á netinu og okkur fannst vanta tækniblogg á íslensku," segir Atli Stefán G. Yngvason.
Hann er einn þeirra sem standa á bak við síðuna Simon.is sem var nýlega sett á laggirnar. Þar er lögð áhersla á skrif um snjallsíma og allt sem þeim tengist, enda er vefsíðan skírð í höfuðið á fyrsta snjallsímanum sem var framleiddur árið 1993 af IBM.
Simon.is er rekin af áhugamönnum um snjallsíma sem eru sumir hverjir tengdir fjarskiptageiranum. Í dag eru sextán aðilar sem skrifa inn á síðuna.
„Við erum að leita að fólki sem hefur verið virkt í að skrifa um svona lagað og hefur áhuga á því. Við viljum vera fleiri en færri og laða að okkur hæfileikafólk." Á meðal þeirra sem hafa gengið til liðs við Atla Stefán og félaga er aðili sem skrifaði inn á síðuna Tolvudoktor.is sem hefur notið töluverðra vinsælda. Einnig verður Rósa Stef, sem hefur vakið athygli fyrir Twitter-síðu sína, þeim innan handar.
Að sögn Atla hafa viðbrögðin við Simon.is verið mjög góð og hefur stefnan verið sett á að fara yfir eitt þúsund flettingar á dag. Auk þess að skrifa um snjallsíma verður einnig eytt plássi í samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter.
Hópurinn á bak við síðuna ætlar að hittast á tveggja vikna fresti og spjalla um það sem efst er á baugi í hvert sinn. „Við stefnum að því að gera þetta að viðburðum sem eru opnir fyrir aðra," segir Atli Stefán og vonast eftir sem flestum þátttakendum. -fb

