Spilling fyrir opnum tjöldum Sif Sigmarsdóttir skrifar 31. ágúst 2011 06:00 Það var af ákafri vandlætingu sem ég hristi höfuðið er kunningi minn frá Íran sagði mér sögu frá heimalandi sínu. Sem nemandi í eðlisfræði við Háskólann í Teheran á níunda áratugnum varð hann var við að framgangur stúdenta við útskrift hélst ekki í hendur við frammistöðu í námi heldur hversu mikinn þátt menn tóku í starfi íslamista. Af gremju fylgdust þeir sem ekki voru í klíkunni með embættismannakerfi borgarinnar fyllast af misvanhæfum flokksgæðingum. Afleiðingar ráðningarstefnunnar virtust kunningja mínum þó í fyrstu ekki tiltakanlegar. En svo var það einn daginn að verkfræðingar borgarinnar mættu í hverfið hans með fylgispektina og skurðgröfur að vopni og hófu að grafa holu. Verkið sóttist þeim vel og þegar holan hafði náð nokkurri dýpt var dælt í hana vatni. Íbúar hverfisins sem fylgst höfðu efablandnir með framkvæmdunum vörpuðu öndinni léttar. Þeir höfðu eignast þessa fallegu tjörn. Svo fór að rigna. Hún draup af mér drýgindaleg sannfæringin um yfirburði eigin samfélags þegar kunningi minn lýsti því hvernig sakleysislegur puntpollurinn breyttist skyndilega í voveiflegt fljót sem streymdi hvítfyssandi um götur og stræti. Hefðu flokksgæðingarnir fylgst betur með í verkfræðitímum hefðu þeir vitað að gera þarf fleira en að moka holu og fylla hana af vatni þegar útbúa á tjörn. Ég hafði hins vegar ekki fyrr kvatt kunningjann en mér var kippt niður úr ylhýrri skýjaborg sjálfumgleðinnar og aftur á jörðina. Það fyrsta sem mér kom til hugar þegar ég heyrði af nýlegri ályktun þingflokks Vinstri grænna til höfuðs iðnaðarráðherra var að þarna hefðu þingmennirnir stolið einu helsta stefnumáli Besta flokksins: „Spilling fyrir opnum tjöldum". Í ályktuninni gagnrýndi þingflokkurinn harðlega þá ákvörðun Katrínar Júlíusdóttur að manna stjórn Byggðastofnunar fólki úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu fremur en pólitískt skipuðum fulltrúum. Í ljósi þess að ein af niðurstöðum hrunskýrslunnar svokölluðu var að pólitískar ráðningar og skipanir hefðu valdið íslensku samfélagi stórskaða vekur uppátækið furðu. Ef til vill er til of mikils mælst að lært sé af reynslunni. Maður hefði hins vegar haldið að „ærukærir" alþingismenn sæju sóma sinn í að loka að minnsta kosti að sér í reykmettuðu bakherberginu áður en þeir stæðu svo blákalt vörð um bitlinga flokksgæðingum til handa. Hvort breytingar hafi verið gerðar á ráðningarstefnu í Teheran kemur vafalítið í ljós innan skamms en þar er nú unnið að því að grafa fyrir stærsta gervistöðuvatni í öllum Mið-Austurlöndum. Við Íslendingar virðumst hins vegar einfaldlega ætla að halda okkur við gamla siði og hætta á Nóaflóð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Það var af ákafri vandlætingu sem ég hristi höfuðið er kunningi minn frá Íran sagði mér sögu frá heimalandi sínu. Sem nemandi í eðlisfræði við Háskólann í Teheran á níunda áratugnum varð hann var við að framgangur stúdenta við útskrift hélst ekki í hendur við frammistöðu í námi heldur hversu mikinn þátt menn tóku í starfi íslamista. Af gremju fylgdust þeir sem ekki voru í klíkunni með embættismannakerfi borgarinnar fyllast af misvanhæfum flokksgæðingum. Afleiðingar ráðningarstefnunnar virtust kunningja mínum þó í fyrstu ekki tiltakanlegar. En svo var það einn daginn að verkfræðingar borgarinnar mættu í hverfið hans með fylgispektina og skurðgröfur að vopni og hófu að grafa holu. Verkið sóttist þeim vel og þegar holan hafði náð nokkurri dýpt var dælt í hana vatni. Íbúar hverfisins sem fylgst höfðu efablandnir með framkvæmdunum vörpuðu öndinni léttar. Þeir höfðu eignast þessa fallegu tjörn. Svo fór að rigna. Hún draup af mér drýgindaleg sannfæringin um yfirburði eigin samfélags þegar kunningi minn lýsti því hvernig sakleysislegur puntpollurinn breyttist skyndilega í voveiflegt fljót sem streymdi hvítfyssandi um götur og stræti. Hefðu flokksgæðingarnir fylgst betur með í verkfræðitímum hefðu þeir vitað að gera þarf fleira en að moka holu og fylla hana af vatni þegar útbúa á tjörn. Ég hafði hins vegar ekki fyrr kvatt kunningjann en mér var kippt niður úr ylhýrri skýjaborg sjálfumgleðinnar og aftur á jörðina. Það fyrsta sem mér kom til hugar þegar ég heyrði af nýlegri ályktun þingflokks Vinstri grænna til höfuðs iðnaðarráðherra var að þarna hefðu þingmennirnir stolið einu helsta stefnumáli Besta flokksins: „Spilling fyrir opnum tjöldum". Í ályktuninni gagnrýndi þingflokkurinn harðlega þá ákvörðun Katrínar Júlíusdóttur að manna stjórn Byggðastofnunar fólki úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu fremur en pólitískt skipuðum fulltrúum. Í ljósi þess að ein af niðurstöðum hrunskýrslunnar svokölluðu var að pólitískar ráðningar og skipanir hefðu valdið íslensku samfélagi stórskaða vekur uppátækið furðu. Ef til vill er til of mikils mælst að lært sé af reynslunni. Maður hefði hins vegar haldið að „ærukærir" alþingismenn sæju sóma sinn í að loka að minnsta kosti að sér í reykmettuðu bakherberginu áður en þeir stæðu svo blákalt vörð um bitlinga flokksgæðingum til handa. Hvort breytingar hafi verið gerðar á ráðningarstefnu í Teheran kemur vafalítið í ljós innan skamms en þar er nú unnið að því að grafa fyrir stærsta gervistöðuvatni í öllum Mið-Austurlöndum. Við Íslendingar virðumst hins vegar einfaldlega ætla að halda okkur við gamla siði og hætta á Nóaflóð.