Gagnrýni

Maður er manns gaman

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bíó. Á annan veg. Leikstjóri: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson. Aðalhlutverk: Hilmar Guðjónsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þorsteinn Bachmann.



Sögusviðið er níundi áratugurinn. Finnbogi og Alfreð eru vegavinnumenn sem eyða heilu sumri saman á ótilgreindum sveitavegi og mála gular línur og berja stikur ofan í jörðina. Finnbogi er ástmaður systur Alfreðs, og mönnunum semur ágætlega þrátt fyrir stöku árekstra. Svona hefst kvikmyndin Á annan veg, sem er fyrsta mynd leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar.

Stórbrotin náttúra Íslands spilar stórt hlutverk í myndinni og fjarlægðin við ys og þys bæjarins skapar einmanalega stemningu. Ég gæti hugsað mér að berja niður nokkrar stikur með þeim félögum en síðan þyrfti ég að láta mig hverfa. Menn þurfa að vera ansi samstilltir til að þola nærveru hvor annars viku eftir viku í einangrun, og þó að Alfreð keyri í bæinn um helgar til að „fá utan um hann" verða samskipti mannanna sífellt súrari eftir því sem líður á sumarið.

Á annan veg er þroskasaga. Í upphafi myndar fær áhorfandinn þá tilfinningu fyrir Finnboga að hann sé sá þroskaði og klári en að Alfreð sé metnaðarlaus vitleysingur. Ekki er þó allt sem sýnist og í ljós kemur að Finnbogi á talsvert eftir ólært um lífið og tilveruna, og smám saman rennur það upp fyrir honum að hann getur lært heilmikið af vitleysingnum. Þegar Alfreð fer í fýlu og lætur sig hverfa getur Finnbogi varla barið niður vegastiku, og lýsir sú sena vináttu þeirra vel. Eins ólíkir og þeir eru virðast þeir háðir hvor öðrum, bæði andlega og í vinnunni. Maður er jú manns gaman.

Það eru þeir Hilmar Guðjónsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson sem fara með hlutverk félaganna og samleikur þeirra er óaðfinnanlegur. Þorsteini Bachmann bregður fyrir annað slagið í líki vörubílstjóra og bannsettur senuþjófurinn sem hann er fær mann til að vilja sjá miklu meira af honum. Stundum fékk ég það reyndar á tilfinninguna að hann væri hreinlega ekki til. Annað hvort ímyndun mannanna eða hugsanlega draugur.

Útlit myndarinnar er áferðarfallegt og minimalískt, og myndatakan er hreinasta afbragð. Hafsteinn leikstjóri heldur vel utan um söguna og leyfir senunum að dragast vel á langinn, og hentar það myndinni fullkomlega. Endir myndarinnar er þó helst til snubbóttur, og hann er það eina sem ég finn að annars stórgóðri mynd.

Niðurstaða: Óvenju þroskuð kvikmynd frá nýliðanum Hafsteini, krydduð hæfilegum skammti af húmor og depurð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×