Lífið

Farsæll kvikmyndaleikstjóri reynir fyrir sér í leikhúsinu

Ragnar Bragason leikstýrir nýju verki eftir sjálfan sig í Borgarleikhúsinu eftir ár. Hann hefur aldrei áður leikstýrt í leikhúsi.Fréttablaðið/Valli
Ragnar Bragason leikstýrir nýju verki eftir sjálfan sig í Borgarleikhúsinu eftir ár. Hann hefur aldrei áður leikstýrt í leikhúsi.Fréttablaðið/Valli
„Við Magnús [Geir Þórðarson] höfum átt þetta samtal í nokkur ár um hvort ég hefði áhuga á að koma inn í leikhúsið og ég stóðst ekki mátið núna þegar vel var boðið,“ segir Ragnar Bragason kvikmyndaleikstjóri.

Ragnar, sem hingað til hefur aðallega gert kvikmyndir og sjónvarpsþætti, semur nýtt verk og leikstýrir því fyrir Borgarleikhúsið, en það verður sett upp á næsta ári. Leikhússtjórinn Magnús Geir er ákaflega ánægður með að hafa klófest Ragnar. „Ég hef dáðst að verkum hans á undanförnum árum. Hann er fær leikstjóri og hefur einstaka sögumannshæfileika, segir sterkar og skýrar sögur af alvöru fólki,“ segir Magnús, sem viðurkennir að hann hafi lengi átt sér þann draum að fá Ragnar til að takast á við leikhúsið.

Ragnari finnst þetta mjög spennandi verkefni, hann er alltaf reiðubúinn að prófa eitthvað nýtt. „Og svo er náttúrlega spurning hvort maður þurfi ekki að víkka út starfssvið sitt þegar stuðningur við kvikmyndagerð er eins og hann er í dag.“ Ragnar er þó ekki blautur á bak við eyrun þegar kemur að leikhúsi því hann gerði heimildarmyndina Love Is in the Air sem fylgdi eftir frægðarför leikhópsins Vesturports til London með sýninguna Rómeó & Júlíu. „Leikhúsið er auðvitað annað sýningarform en grunnatriðin eru alltaf þau sömu, maður er að segja sögu og búa til persónur.“

Og Ragnar viðurkennir að vinnuaðferðir hans með leikurum eigi rætur sínar að rekja til leikhússins. „Þetta er eitthvað sem Mike Leigh byrjaði að þróa í leikhúsi og færði út í bíómyndir sínar og byggist á því að nota leikara sem höfunda.“

Leikstjórinn segir að leikhúsið hafi sína kosti, áhorfendur séu til að mynda tilbúnari að trúa í leikhúsi en gagnvart bíómynd. „Í bíómynd verður maður að hafa glugga og veggi og ákveðinn raunveruleika en í leikhúsi veit fólk að það er að horfa á eitthvað tilbúið,“ útskýrir Ragnar, sem kveðst þó ekki ætla að taka stórt stökk efnislega. „Ég ætla að halda mig við það sem ég kann; þetta verður realískt verk með blöndu af gamni og alvöru.“freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.