Undirstaða velferðarinnar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 30. september 2011 06:00 Óánægja lögreglumanna með kjör sín er vel skiljanleg. Þeir hafa bent á að þeir hafi dregizt aftur úr þeim viðmiðunarhópum, sem voru skilgreindir þegar lögreglumenn voru sviptir verkfallsrétti. Niðurstöðu gerðardóms telja þeir ekki taka mið af þessu kjaramisgengi. Láti vinnuveitandi þeirra, ríkið, kjaradeilur ævinlega ganga til gerðardóms eins og nú séu lögreglumenn fastir í láglaunagildru. Ofan á launamisgengið bætist að framlög til lögreglunnar hafa verið skorin niður umfram það sem forsvaranlegt getur talizt út frá öryggi borgaranna. Það skilar sér sömuleiðis í erfiðari starfsaðstæðum lögreglumanna og álagi, sem er nánast ómanneskjulegt. Lögreglumenn eiga lengri og erfiðari vinnudag en við flest og horfa dag hvern upp á æ harðari heim fíkniefnaneyzlu, ofbeldis og skipulagðrar glæpastarfsemi, sem fer saman við vaxandi virðingarleysi fyrir þeim sjálfum og störfum þeirra. Eins og málin standa nú er raunveruleg hætta á að flótti verði úr lögreglunni. Þeir sem þar starfa hafa flestir menntun og reynslu sem nýtist vel í öðrum störfum. Erfitt atvinnuástand er líklega eitt af því fáa sem kemur í veg fyrir að lögreglan missi margt af sínu bezta fólki – ásamt því að í stétt lögreglumanna eru margir sem sinna starfi sínu af hugsjón. Forystumönnum ríkisstjórnarinnar verður tíðrætt um að standa þurfi vörð um grundvöll velferðarsamfélagsins. Öflug og vel mönnuð lögregla er að sjálfsögðu hluti af þeim grundvelli. Aðgangur að frábærri heilbrigðis- og félagsþjónustu er lítils virði ef fólk getur ekki verið öruggt um sjálft sig og eignir sínar. Löggæzlan er grundvallarhlutverk ríkisvaldsins sem kemur á undan flestum öðrum verkefnum í forgangsröðinni. Þess vegna hljóta stjórnvöld að reyna að finna lausnir á kjaradeilu lögreglumanna. Það kann að taka einhvern tíma, eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í Fréttablaðinu í gær, en um leið ber að hafa í huga að biðlund lögreglumanna er augljóslega á þrotum. Störf lögreglumanna eru þess eðlis að í kjarabaráttu sinni geta þeir ekki gert neitt sem stofnar öryggi fólks í hættu. Það ber stjórnvöldum að virða, en ekki notfæra sér. Sömuleiðis er mikilvægt að þeir sem um þetta mál fjalla geri það með ábyrgum hætti. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust að velta vöngum um hvort ólæti brjótist út við þingsetningu ef óeirðasveitir lögreglunnar vanti. Það er ábyrgðarlaust að skamma lögreglumenn í kjarabaráttu fyrir ákvörðun sem yfirmaður þeirra tók, um að sleppa heiðursverði við þingsetningu, eins og Ólína Þorvarðardóttir þingmaður gerði. Og það er fullkomlega galið að spyrða saman kjarabaráttu lögreglumanna og athugasemdir Ríkisendurskoðunar (óháðrar eftirlitsstofnunar á vegum Alþingis) við það hvernig stjórnendur lögreglunnar umgengust reglur um opinber útboð, eins og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, gerði á heimasíðu sinni. Þær athugasemdir koma kjaramálum lögreglumanna að sjálfsögðu ekkert við. Staða mála í lögreglunni er alvarlegri en svo að menn eigi að reyna að nota hana til að slá pólitískar keilur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Óánægja lögreglumanna með kjör sín er vel skiljanleg. Þeir hafa bent á að þeir hafi dregizt aftur úr þeim viðmiðunarhópum, sem voru skilgreindir þegar lögreglumenn voru sviptir verkfallsrétti. Niðurstöðu gerðardóms telja þeir ekki taka mið af þessu kjaramisgengi. Láti vinnuveitandi þeirra, ríkið, kjaradeilur ævinlega ganga til gerðardóms eins og nú séu lögreglumenn fastir í láglaunagildru. Ofan á launamisgengið bætist að framlög til lögreglunnar hafa verið skorin niður umfram það sem forsvaranlegt getur talizt út frá öryggi borgaranna. Það skilar sér sömuleiðis í erfiðari starfsaðstæðum lögreglumanna og álagi, sem er nánast ómanneskjulegt. Lögreglumenn eiga lengri og erfiðari vinnudag en við flest og horfa dag hvern upp á æ harðari heim fíkniefnaneyzlu, ofbeldis og skipulagðrar glæpastarfsemi, sem fer saman við vaxandi virðingarleysi fyrir þeim sjálfum og störfum þeirra. Eins og málin standa nú er raunveruleg hætta á að flótti verði úr lögreglunni. Þeir sem þar starfa hafa flestir menntun og reynslu sem nýtist vel í öðrum störfum. Erfitt atvinnuástand er líklega eitt af því fáa sem kemur í veg fyrir að lögreglan missi margt af sínu bezta fólki – ásamt því að í stétt lögreglumanna eru margir sem sinna starfi sínu af hugsjón. Forystumönnum ríkisstjórnarinnar verður tíðrætt um að standa þurfi vörð um grundvöll velferðarsamfélagsins. Öflug og vel mönnuð lögregla er að sjálfsögðu hluti af þeim grundvelli. Aðgangur að frábærri heilbrigðis- og félagsþjónustu er lítils virði ef fólk getur ekki verið öruggt um sjálft sig og eignir sínar. Löggæzlan er grundvallarhlutverk ríkisvaldsins sem kemur á undan flestum öðrum verkefnum í forgangsröðinni. Þess vegna hljóta stjórnvöld að reyna að finna lausnir á kjaradeilu lögreglumanna. Það kann að taka einhvern tíma, eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í Fréttablaðinu í gær, en um leið ber að hafa í huga að biðlund lögreglumanna er augljóslega á þrotum. Störf lögreglumanna eru þess eðlis að í kjarabaráttu sinni geta þeir ekki gert neitt sem stofnar öryggi fólks í hættu. Það ber stjórnvöldum að virða, en ekki notfæra sér. Sömuleiðis er mikilvægt að þeir sem um þetta mál fjalla geri það með ábyrgum hætti. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust að velta vöngum um hvort ólæti brjótist út við þingsetningu ef óeirðasveitir lögreglunnar vanti. Það er ábyrgðarlaust að skamma lögreglumenn í kjarabaráttu fyrir ákvörðun sem yfirmaður þeirra tók, um að sleppa heiðursverði við þingsetningu, eins og Ólína Þorvarðardóttir þingmaður gerði. Og það er fullkomlega galið að spyrða saman kjarabaráttu lögreglumanna og athugasemdir Ríkisendurskoðunar (óháðrar eftirlitsstofnunar á vegum Alþingis) við það hvernig stjórnendur lögreglunnar umgengust reglur um opinber útboð, eins og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, gerði á heimasíðu sinni. Þær athugasemdir koma kjaramálum lögreglumanna að sjálfsögðu ekkert við. Staða mála í lögreglunni er alvarlegri en svo að menn eigi að reyna að nota hana til að slá pólitískar keilur.