Fögnum með báða fætur á jörðinni 15. október 2011 00:01 „Við erum eiginlega dálítið hátt uppi, það er svo gaman að vera til hérna," segir Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, um Bókamessuna í Frankfurt í samtali við Fréttablaðið í dag. Ekki er nema von að íslenskir höfundar og útgefendur svífi um á bleiku skýi þessi dægrin, enda hafa þeir verið miðpunktur athyglinnar á einni áhrifamestu bókakaupstefnu heims. Fræjunum hefur verið sáð og nú bíðum við uppskerunnar. Heiðurssess Íslands á Bókamessunni í Frankfurt er ein viðamesta landkynning sem Íslandi hefur hlotnast. Langmesta afrekið í því sambandi er að yfir 200 bækur hafa verið þýddar á þýsku. Það hefur í för með sér ófá tækifæri fyrir höfunda á málsvæði sem er svo lítið að það er óaðgengilegt þorra útgefenda í heiminum. Full ástæða er til að fagna þeirri athygli sem íslenskar bókmenntir njóta í Þýskalandi. Að sama skapi er einnig mikilvægt að halda sig á jörðinni og gera raunhæfar væntingar um árangurinn í kjölfarið. Haft hefur verið á orði að heiðurssess Íslands í Frankfurt í ár marki tímamót; að íslenskar bókmenntir séu nú orðnar alþjóðlegar; í haust hafi til dæmis sá fáheyrði atburður gerst að bók eftir íslenskan höfund, Hallgrím Helgason, hafi komið út á þýsku áður en hún kom út á frummálinu. Velgengni á erlendum mörkuðum getur sannarlega skipt sköpum fyrir rithöfunda í litlu landi, þar sem fáir selja mikið meira en fimm til tíu þúsund eintök af hverjum titli. Velgengni eins höfundar erlendis getur jafnvel reynst lyftistöng fyrir heilt bókaforlag, sem aðrir höfundar njóta þá jafnvel góðs af. Auðvitað er það ánægjuefni fyrir íslenska höfunda að eygja möguleika á aukinni útbreiðslu og fleiri lesendum. Um leið hlýtur það að vera þeim tilefni til að leiða hugann að því fyrir hvern þeir skrifa. Arnaldur Indriðason, sem notið hefur mestrar alþjóðlegrar velgengni íslenskra höfunda í seinni tíð, svaraði þeirri spurningu fyrir sitt leyti í viðtali við Fréttablaðið fyrir nokkrum árum. „Ég skrifa fyrst og fremst fyrir íslenska lesendur, þeim á ég allt að þakka…" Erlend útgáfa er aftur á móti engin trygging fyrir góðri sölu. Af þeim 200 bókum sem komið hafa út á þessu ári eiga sjálfsagt tiltölulega fáar eftir að ná almennum vinsældum og enn færri íslenskir höfundar eftir að ná þeirri stöðu að verða „alþjóðlegir". Ekki er loku fyrir það skotið að í kjölfar Bókamessunnar verði jafnvel tímabundið bakslag í útgáfu á íslenskum ritum í Þýskalandi; að markaðurinn þar í landi verði hreinlega mettur í bili. Þetta er ekki sett fram sem hrakspá, heldur varnagli sem verður að slá. Eitt merkasta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar er vafalítið bókmenntaarfurinn, og Bókamessan í Frankfurt er sannarlega merkur áfangi í útgáfusögu á Íslandi. Höfum samt hugfast að íslenskar bókmenntir eru ekki á leið í útrás að sigra heiminn. Við eigum ekki eftir að eignast tugi alþjóðlegra metsöluhöfunda á næsta áratug. Við getum í besta falli vonast til að íslensk skáld haldi áfram að leggja eitthvað til umheimsins og að íslensk rit leggi undir sig aðeins fleiri hillumetra í bókaskápum heimsins. Það væri í sjálfu sér ekki lítið afrek. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergsteinn Sigurðsson Skoðanir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
„Við erum eiginlega dálítið hátt uppi, það er svo gaman að vera til hérna," segir Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, um Bókamessuna í Frankfurt í samtali við Fréttablaðið í dag. Ekki er nema von að íslenskir höfundar og útgefendur svífi um á bleiku skýi þessi dægrin, enda hafa þeir verið miðpunktur athyglinnar á einni áhrifamestu bókakaupstefnu heims. Fræjunum hefur verið sáð og nú bíðum við uppskerunnar. Heiðurssess Íslands á Bókamessunni í Frankfurt er ein viðamesta landkynning sem Íslandi hefur hlotnast. Langmesta afrekið í því sambandi er að yfir 200 bækur hafa verið þýddar á þýsku. Það hefur í för með sér ófá tækifæri fyrir höfunda á málsvæði sem er svo lítið að það er óaðgengilegt þorra útgefenda í heiminum. Full ástæða er til að fagna þeirri athygli sem íslenskar bókmenntir njóta í Þýskalandi. Að sama skapi er einnig mikilvægt að halda sig á jörðinni og gera raunhæfar væntingar um árangurinn í kjölfarið. Haft hefur verið á orði að heiðurssess Íslands í Frankfurt í ár marki tímamót; að íslenskar bókmenntir séu nú orðnar alþjóðlegar; í haust hafi til dæmis sá fáheyrði atburður gerst að bók eftir íslenskan höfund, Hallgrím Helgason, hafi komið út á þýsku áður en hún kom út á frummálinu. Velgengni á erlendum mörkuðum getur sannarlega skipt sköpum fyrir rithöfunda í litlu landi, þar sem fáir selja mikið meira en fimm til tíu þúsund eintök af hverjum titli. Velgengni eins höfundar erlendis getur jafnvel reynst lyftistöng fyrir heilt bókaforlag, sem aðrir höfundar njóta þá jafnvel góðs af. Auðvitað er það ánægjuefni fyrir íslenska höfunda að eygja möguleika á aukinni útbreiðslu og fleiri lesendum. Um leið hlýtur það að vera þeim tilefni til að leiða hugann að því fyrir hvern þeir skrifa. Arnaldur Indriðason, sem notið hefur mestrar alþjóðlegrar velgengni íslenskra höfunda í seinni tíð, svaraði þeirri spurningu fyrir sitt leyti í viðtali við Fréttablaðið fyrir nokkrum árum. „Ég skrifa fyrst og fremst fyrir íslenska lesendur, þeim á ég allt að þakka…" Erlend útgáfa er aftur á móti engin trygging fyrir góðri sölu. Af þeim 200 bókum sem komið hafa út á þessu ári eiga sjálfsagt tiltölulega fáar eftir að ná almennum vinsældum og enn færri íslenskir höfundar eftir að ná þeirri stöðu að verða „alþjóðlegir". Ekki er loku fyrir það skotið að í kjölfar Bókamessunnar verði jafnvel tímabundið bakslag í útgáfu á íslenskum ritum í Þýskalandi; að markaðurinn þar í landi verði hreinlega mettur í bili. Þetta er ekki sett fram sem hrakspá, heldur varnagli sem verður að slá. Eitt merkasta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar er vafalítið bókmenntaarfurinn, og Bókamessan í Frankfurt er sannarlega merkur áfangi í útgáfusögu á Íslandi. Höfum samt hugfast að íslenskar bókmenntir eru ekki á leið í útrás að sigra heiminn. Við eigum ekki eftir að eignast tugi alþjóðlegra metsöluhöfunda á næsta áratug. Við getum í besta falli vonast til að íslensk skáld haldi áfram að leggja eitthvað til umheimsins og að íslensk rit leggi undir sig aðeins fleiri hillumetra í bókaskápum heimsins. Það væri í sjálfu sér ekki lítið afrek.