Spurning um pólitískan vilja ÓLafur Þ. Stephensen skrifar 26. október 2011 06:00 Við þekkjum orðið vel talið um að allt sé að fara til andskotans á evrusvæðinu, evran muni líða undir lok og allt það. Sumir tala eins og þeir hlakki beinlínis til. Það getur verið gagnlegt að bregða upp samanburði við önnur öflug gjaldmiðilssvæði. Það gerði Tristan Garel-Jones, fyrrverandi Evrópumálaráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins í Bretlandi, í grein í Financial Times í fyrradag. Hann bendir þar á að á evrusvæðinu í heild sé fjárlagahallinn (meginundirrót vandans sem glímt er við) áætlaður 4,1 prósent af landsframleiðslu á þessu ári og viðskiptajöfnuðurinn (sem segir til um jafnvægið í inn- og útstreymi gjaldeyris) jákvæður um 0,1 prósent. Í Bretlandi sé fjárlagahallinn 8,5 prósent og viðskiptahallinn 2,7 prósent. Skuldir ríkissjóðs séu hærra hlutfall af landsframleiðslu en í sumum verst settu evruríkjunum, til dæmis á Spáni. Í Bandaríkjunum er fjárlagahallinn 9,6 prósent og viðskiptajöfnuðurinn neikvæður um 3,1 prósent. Samt gera fáir því skóna að dollarinn eða sterlingspundið leggist af fljótlega. Fjölmiðlar heimsins og fjármálamarkaðir eru miklu uppteknari af evrusvæðinu en hlutskipti Bandaríkjanna eða Bretlands (að ekki sé talað um litla krónusvæðið okkar, þar sem fjárlagahallinn var hátt í níu prósent af landsframleiðslu í fyrra og viðskiptahallinn rúm tíu prósent). Á heildina litið er evrusvæðið í betri málum efnahagslega en ýmis önnur stór hagkerfi. Kreppan liggur í hallarekstri og skuldavanda einstakra ríkja (og ríflegum útlánum banka til þessara sömu ríkja) og þeirri staðreynd að smíði Efnahags- og myntbandalagsins var aldrei kláruð. Ótti markaðanna við að verr fari á evrusvæðinu en til dæmis hjá notendum dollarans og sterlingspundsins er þó ekki ástæðulaus. Það er flóknara að ná pólitískri samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir á meðal sautján ríkja sem nota evruna (og í sumum tilvikum allra 27 aðildarríkja Evrópusambandsins) en það er fyrir eina ríkisstjórn að koma sér saman um aðgerðaplan. Óvissan snýst ekki sízt um það hvort öll ríkin eru reiðubúin að gera það sem gera þarf. Það getur þýtt að almenningur í evruríkjunum sem bezt standa þurfi að færa fórnir til að bjarga þeim sem verr standa, vilji fólk halda áfram að njóta kosta sameiginlegs gjaldmiðils. Þetta gleymdist að útskýra fyrir kjósendum þegar evran var innleidd. Sömuleiðis er ekki víst að öll aðildarríkin séu reiðubúin að undirgangast þann aga í ríkisfjármálum sem er nauðsynlegur, ekki aðeins til að komast út úr kreppunni til skemmri tíma heldur einnig og ekki síður til að fyrirbyggja að hún endurtaki sig. Á fundi leiðtoga Evrópusambandsins í dag reynir því á pólitískan vilja og evrópska samstöðu. Það er langt í frá sjálfgefið að þeim takist það ætlunarverk að koma evrusvæðinu út úr kreppunni. Það er hins vegar misskilningur að afleiðingarnar af slíku skipbroti fyrir heimshagkerfið séu eitthvert tilhlökkunarefni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Hvar er mannúðin? Davíð Sól Pálsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun
Við þekkjum orðið vel talið um að allt sé að fara til andskotans á evrusvæðinu, evran muni líða undir lok og allt það. Sumir tala eins og þeir hlakki beinlínis til. Það getur verið gagnlegt að bregða upp samanburði við önnur öflug gjaldmiðilssvæði. Það gerði Tristan Garel-Jones, fyrrverandi Evrópumálaráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins í Bretlandi, í grein í Financial Times í fyrradag. Hann bendir þar á að á evrusvæðinu í heild sé fjárlagahallinn (meginundirrót vandans sem glímt er við) áætlaður 4,1 prósent af landsframleiðslu á þessu ári og viðskiptajöfnuðurinn (sem segir til um jafnvægið í inn- og útstreymi gjaldeyris) jákvæður um 0,1 prósent. Í Bretlandi sé fjárlagahallinn 8,5 prósent og viðskiptahallinn 2,7 prósent. Skuldir ríkissjóðs séu hærra hlutfall af landsframleiðslu en í sumum verst settu evruríkjunum, til dæmis á Spáni. Í Bandaríkjunum er fjárlagahallinn 9,6 prósent og viðskiptajöfnuðurinn neikvæður um 3,1 prósent. Samt gera fáir því skóna að dollarinn eða sterlingspundið leggist af fljótlega. Fjölmiðlar heimsins og fjármálamarkaðir eru miklu uppteknari af evrusvæðinu en hlutskipti Bandaríkjanna eða Bretlands (að ekki sé talað um litla krónusvæðið okkar, þar sem fjárlagahallinn var hátt í níu prósent af landsframleiðslu í fyrra og viðskiptahallinn rúm tíu prósent). Á heildina litið er evrusvæðið í betri málum efnahagslega en ýmis önnur stór hagkerfi. Kreppan liggur í hallarekstri og skuldavanda einstakra ríkja (og ríflegum útlánum banka til þessara sömu ríkja) og þeirri staðreynd að smíði Efnahags- og myntbandalagsins var aldrei kláruð. Ótti markaðanna við að verr fari á evrusvæðinu en til dæmis hjá notendum dollarans og sterlingspundsins er þó ekki ástæðulaus. Það er flóknara að ná pólitískri samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir á meðal sautján ríkja sem nota evruna (og í sumum tilvikum allra 27 aðildarríkja Evrópusambandsins) en það er fyrir eina ríkisstjórn að koma sér saman um aðgerðaplan. Óvissan snýst ekki sízt um það hvort öll ríkin eru reiðubúin að gera það sem gera þarf. Það getur þýtt að almenningur í evruríkjunum sem bezt standa þurfi að færa fórnir til að bjarga þeim sem verr standa, vilji fólk halda áfram að njóta kosta sameiginlegs gjaldmiðils. Þetta gleymdist að útskýra fyrir kjósendum þegar evran var innleidd. Sömuleiðis er ekki víst að öll aðildarríkin séu reiðubúin að undirgangast þann aga í ríkisfjármálum sem er nauðsynlegur, ekki aðeins til að komast út úr kreppunni til skemmri tíma heldur einnig og ekki síður til að fyrirbyggja að hún endurtaki sig. Á fundi leiðtoga Evrópusambandsins í dag reynir því á pólitískan vilja og evrópska samstöðu. Það er langt í frá sjálfgefið að þeim takist það ætlunarverk að koma evrusvæðinu út úr kreppunni. Það er hins vegar misskilningur að afleiðingarnar af slíku skipbroti fyrir heimshagkerfið séu eitthvert tilhlökkunarefni.