Jarðarför íslenskrar ólundar Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 31. október 2011 06:00 Ég held við séum bara tveir í bænum Priego de Córdoba sem eigum það til að flýta okkur. Það er að segja ég og katalónski markaðsstjórinn sem arkar eftir götunum eins og byssubrandur. Allir aðrir virðast sífellt fara fetið á leið sinni um bæinn og stoppa annan hvern mann sem þeir hitta og spyrja út í hagi hans. Er fólki þetta svo tamt að bílstjórar hika ekki við að stoppa þegar þeir aka eftir þröngum einstefnugötunum, skrúfa niður rúðuna og hefja spjall við kunningja á vegkantinum og láta ólund þeirra sem fyrir aftan eru sér í léttu rúmi liggja. En eftir lexíu nokkra sem ég fékk um daginn er ég að velta fyrir mér að skilja Katalanann eftir einan í þessu ólundarliði. Þannig er mál með vexti að ég var að drífa mig og tók bílinn því ég þurfti að fara á fund í útjaðri bæjarins. Ég er rétt búinn að fara hundrað metra eftir þröngri og krókóttri einstefnugötu þegar ég kem að kyrrstæðum bíl. Hlýtt var í veðri svo ég skrúfa niður rúðuna og þar sem ég var orðinn stressaður kveikti ég á græjunum. Bíllinn fyrir framan mig rétt lullast þá áfram nokkra metra. Við förum fyrir horn og sé ég þá að nokkuð löng bílaruna er fyrir framan mig. Ég þen bílflautuna svolítið en set svo Hauk Morthens undir geislann og fallegasta rödd allra tíma hljómar um þröng strætin: „Þó þorskurinn sé ekki skepna skýr hann skömm hefur Bretanum á.“ Svo loks lullast röðin að götukaflanum sem er með tvær akreinar og þá gat ég beygt til hliðar og síðan keyrt framhjá rununni, syngjandi „kaupakonan hans Gísla í Gröf er glettin og hýr á brá“. En þá dynja ósköpin yfir. Ég sé, mér til mikillar hrellingar, að fyrir framan bílaröðina er heil hersing af fólki og svo glittir þar í blómahaf mikið. Og síðan þegar ég er að fara framhjá öllu saman sá ég sjálfan líkbílinn. Ég ætlaði að hverfa út í umferðina en varð fastur á rauðu ljósi. Ég kunni ekki við að loka glugganum meðan líkfylgdin fór framhjá mér en ég lækkaði í Hauki og hugsaði með mér hvað ég gæti sagt ef einhver yrti á mig. Hvernig skyldi maður segja á spænsku: „Jæja, Hemmi minn, ertu ekki alltaf í boltanum?“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt ! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena J. Mörtudóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun
Ég held við séum bara tveir í bænum Priego de Córdoba sem eigum það til að flýta okkur. Það er að segja ég og katalónski markaðsstjórinn sem arkar eftir götunum eins og byssubrandur. Allir aðrir virðast sífellt fara fetið á leið sinni um bæinn og stoppa annan hvern mann sem þeir hitta og spyrja út í hagi hans. Er fólki þetta svo tamt að bílstjórar hika ekki við að stoppa þegar þeir aka eftir þröngum einstefnugötunum, skrúfa niður rúðuna og hefja spjall við kunningja á vegkantinum og láta ólund þeirra sem fyrir aftan eru sér í léttu rúmi liggja. En eftir lexíu nokkra sem ég fékk um daginn er ég að velta fyrir mér að skilja Katalanann eftir einan í þessu ólundarliði. Þannig er mál með vexti að ég var að drífa mig og tók bílinn því ég þurfti að fara á fund í útjaðri bæjarins. Ég er rétt búinn að fara hundrað metra eftir þröngri og krókóttri einstefnugötu þegar ég kem að kyrrstæðum bíl. Hlýtt var í veðri svo ég skrúfa niður rúðuna og þar sem ég var orðinn stressaður kveikti ég á græjunum. Bíllinn fyrir framan mig rétt lullast þá áfram nokkra metra. Við förum fyrir horn og sé ég þá að nokkuð löng bílaruna er fyrir framan mig. Ég þen bílflautuna svolítið en set svo Hauk Morthens undir geislann og fallegasta rödd allra tíma hljómar um þröng strætin: „Þó þorskurinn sé ekki skepna skýr hann skömm hefur Bretanum á.“ Svo loks lullast röðin að götukaflanum sem er með tvær akreinar og þá gat ég beygt til hliðar og síðan keyrt framhjá rununni, syngjandi „kaupakonan hans Gísla í Gröf er glettin og hýr á brá“. En þá dynja ósköpin yfir. Ég sé, mér til mikillar hrellingar, að fyrir framan bílaröðina er heil hersing af fólki og svo glittir þar í blómahaf mikið. Og síðan þegar ég er að fara framhjá öllu saman sá ég sjálfan líkbílinn. Ég ætlaði að hverfa út í umferðina en varð fastur á rauðu ljósi. Ég kunni ekki við að loka glugganum meðan líkfylgdin fór framhjá mér en ég lækkaði í Hauki og hugsaði með mér hvað ég gæti sagt ef einhver yrti á mig. Hvernig skyldi maður segja á spænsku: „Jæja, Hemmi minn, ertu ekki alltaf í boltanum?“