„Andans eigin dóttir“ Guðmundur Andri Thorsson skrifar 12. desember 2011 10:00 Hannes Hafstein er 150 ára um þessar mundir. Og eins og öll skáld á öllum tímum á hann við okkur brýn erindi. Við sáum hann í Kiljunni um daginn svífa niður tröppur með þessu settlega göngulagi sem samherjar dýrkuðu en andstæðingar hötuðu. Margir dýrkuðu hann, sumir hötuðu hann og ýmsir hötuðu að dýrka hann. Hann var flottari en danski kóngurinn þegar hann kom til Íslands 1907. Það var allnokkuð fyrir þrautpínda þjóð í tötrum! Arfleifð hans snýst um glæsimennsku – en líka þrótt, djörfung og löngun til að skapa hér góð lífskjör. Og auðvitað um frændhygli, klíkuræði, ofríki og eyðslusemi – nema hvað. En það er samt með ólíkindum hversu miklu Hannes kom í verk á sínu fyrra valdaskeiði frá 1904 til 1908 – og með ólíkindum að þjóðin skyldi láta æsa sig upp til að hafna honum og verkum hans eftir fyrsta kjörtímabilið vegna formsatriða, útúrsnúnings og æsinga í Uppkastinu svokallaða, svo að það tafðist um tíu ár að Íslendingar fengju fullveldi. Hannes var maður lýðréttinda – átti það sammerkt með sínum helsta keppinaut og skoðanabróður, Skúla Thoroddsen, að vera frumkvöðull meðal valdakarla í kvenréttindamálum, svo að dæmi sé tekið. Honum fannst þjóðin vera ung en ekki gömul, framtakssöm en ekki dauf, hress og kát en ekki fúl og þreytt. Honum fannst hún eiga allskostar við heiminn en ætti ekki að einangra sig, full þvermóðsku og ótta. Sjálfstæðisbaráttu-glamrið var honum eitur í beinum og hann skopstældi meðal annars Öxar við ána. Hann var skáld dagsbirtunnar, framfaranna og dáðanna, skáld æsku og vors: umfram allt lífsins. „Himneskt er að lifa" hrópar hann fagnandi í sínum indælu vísum um blessaða sólina sem elskar allt. Þetta á erindi við okkur á hverjum degi. Líka þetta sem hann segir í ljóðinu Vantar menn: „Orð, orð / innantóm / fylla storð / fölskum róm". Það er eins og kynni hans af Georg Brandes og raunsæisstefnunni gefi honum víðari sýn á Ísland. Hann sér þetta samfélag í ljósi nútímalegrar evrópskrar borgarmenningar. Hann sér þjóðfrelsisbaráttuna og þær ógöngur sem hún hafði smám saman ratað í þar sem meiri áhersla var lögð á innantómar kröfur um hárnákvæman lagabókstaf og form en raunverulegar umbætur á lífi landsmanna sem svo sárlega þurfti. Þar með er ekki sagt að Hannes hafi ekki unnað frelsinu og ekki þráð frelsi til handa sinni þjóð. Þyki okkur nóg um æsinginn og ófyrirleitnina og drullupolla-skvampið í þjóðfélagsumræðunni á okkar dögum þá er hún hátíð hjá því sem tíðkaðist á dögum Hannesar Hafstein þegar menn skirrðust ekki við að bera hver annan hinum verstu sökum á prenti, hnakkrifust, kölluðu hver annan sýfílissjúklinga, fyllibyttur, illmenni og það sem verst var: leirskáld. En þetta er samt svolítið slæmt ennþá og kvæðið „Strikum yfir stóru orðin" á enn erindi við okkur. Það má heita kredó Hannesar Hafstein og það ættu allir að lesa reglulega, ritstjórar, stjórnmálamenn, bloggarar, pistlaskúmar. 1. erindið er svona: „Strikum yfir stóru orðin, / standa við þau minni reynum. / Skjöllum ekki skrílsins vammir,/ skiljum sjálfir hvað vér meinum." Reynum að vanda okkur við það hvernig við tölum og skrifum. Hættum þessu gargi, þessu lýðskrumi, hættum að espa upp verstu kenndir fjöldans, leggjum af þessa ofsafengnu umræðu en reynum heldur að segja það sem við meinum og meina það sem við segjum. Skilja það sem við meinum. Við verðum að reyna að endurheimta orðin. Hannes Hafstein aðhylltist sem sé frelsið – meira en mörg yfirlýst þjóðfrelsishetjan sem fyrst og fremst aðhylltist frelsi stórbænda og höfðingja til að ráða yfir sínu fólki. Hannes aðhylltist frelsi í viðskiptum, frelsi í búsetu og atvinnu, frelsi til að kjósa, tjá sig, lifa sínu lífi. En hann vildi sem sé að frelsið hefði merkingu, inntak. Svona er 2. erindið í kvæðinu: „Fleiprum ei að frelsi höfum, / fyrr en sjálfir hugsa þorum. / Segjum ekki að vér hlaupum / er í sömu hjökkum sporum." Reynum að vera raunsæ, segjum satt, misnotum ekki háleitt orð. Þannig brýnir hann fyrir þjóð sinni að leita frelsis andans, hrista af sér klafa úrelts hugsunarháttar og þrælslundar. En frelsið var líka dýrmætara en svo að við getum eftirlátið það þeim sem hafa gert óréttlæti og misskiptingu gæða að lífshugsjón sinni og leggja að jöfnu frelsi og óheft peningaumsvif. Svona er 3. erindið hjá Hannesi: „Frelsið er ei verðlögð vara, / veitist ei með tómum lögum. / Það er andans eigin dóttir / ekki mynd úr gömlum sögum. // Enginn verður frjáls, þótt fari / feikna-hring í tjóðurbandi. / Mýldur fúnum trúartaumum, / teymist hvergi frelsis-andi." Hannes Hafstein var frelsissinni, frjálslyndur maður. Hann á við okkur brýn erindi: hann orti um lífið og sólina, líka þegar hann stóð í myrkrinu andspænis dauðanum. Hann vegsamaði náttúruöflin – blessað rokið sem allir tala svo illa um að ósekju – og lífsnautnirnar sem mörgum er svo illa við. Hann gerði gys að þjóðernisbelgingi. Hann bað okkur að strika yfir stóru orðin en reyna heldur að standa við þau minni. Hann benti á að frelsi er ekki bara orð sem maður tekur sér, það veitist ekki bara með lagasetningu, það verður ekki metið til fjár, það er ekki „mynd úr gömlum sögum" og það veitist okkur ekki með heitstrengingum og derringi. Það er „andans eigin dóttir". Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Halldór 04.01.2025 Halldór Isavia sóar fjármagni í eigin ímynd Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Vöruhúsið í Álfabakka - í boði hvers? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Forseti ASÍ á skautum Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Ísland undaskilið alþjóðlegum kolefniskvóta Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Yrkjum lífsgæði í Dölunum Björn Bjarki Þorsteinsson Skoðun Helvítis væl alltaf í þessum kalli Hólmgeir Baldursson Skoðun Það næst ekki í lækni, það verður vonandi úrskurðað um andlát á morgun eða hinn Bjarki Oddsson Skoðun Stórkostlega ungur Kristján Friðbert Friðbertsson Skoðun
Hannes Hafstein er 150 ára um þessar mundir. Og eins og öll skáld á öllum tímum á hann við okkur brýn erindi. Við sáum hann í Kiljunni um daginn svífa niður tröppur með þessu settlega göngulagi sem samherjar dýrkuðu en andstæðingar hötuðu. Margir dýrkuðu hann, sumir hötuðu hann og ýmsir hötuðu að dýrka hann. Hann var flottari en danski kóngurinn þegar hann kom til Íslands 1907. Það var allnokkuð fyrir þrautpínda þjóð í tötrum! Arfleifð hans snýst um glæsimennsku – en líka þrótt, djörfung og löngun til að skapa hér góð lífskjör. Og auðvitað um frændhygli, klíkuræði, ofríki og eyðslusemi – nema hvað. En það er samt með ólíkindum hversu miklu Hannes kom í verk á sínu fyrra valdaskeiði frá 1904 til 1908 – og með ólíkindum að þjóðin skyldi láta æsa sig upp til að hafna honum og verkum hans eftir fyrsta kjörtímabilið vegna formsatriða, útúrsnúnings og æsinga í Uppkastinu svokallaða, svo að það tafðist um tíu ár að Íslendingar fengju fullveldi. Hannes var maður lýðréttinda – átti það sammerkt með sínum helsta keppinaut og skoðanabróður, Skúla Thoroddsen, að vera frumkvöðull meðal valdakarla í kvenréttindamálum, svo að dæmi sé tekið. Honum fannst þjóðin vera ung en ekki gömul, framtakssöm en ekki dauf, hress og kát en ekki fúl og þreytt. Honum fannst hún eiga allskostar við heiminn en ætti ekki að einangra sig, full þvermóðsku og ótta. Sjálfstæðisbaráttu-glamrið var honum eitur í beinum og hann skopstældi meðal annars Öxar við ána. Hann var skáld dagsbirtunnar, framfaranna og dáðanna, skáld æsku og vors: umfram allt lífsins. „Himneskt er að lifa" hrópar hann fagnandi í sínum indælu vísum um blessaða sólina sem elskar allt. Þetta á erindi við okkur á hverjum degi. Líka þetta sem hann segir í ljóðinu Vantar menn: „Orð, orð / innantóm / fylla storð / fölskum róm". Það er eins og kynni hans af Georg Brandes og raunsæisstefnunni gefi honum víðari sýn á Ísland. Hann sér þetta samfélag í ljósi nútímalegrar evrópskrar borgarmenningar. Hann sér þjóðfrelsisbaráttuna og þær ógöngur sem hún hafði smám saman ratað í þar sem meiri áhersla var lögð á innantómar kröfur um hárnákvæman lagabókstaf og form en raunverulegar umbætur á lífi landsmanna sem svo sárlega þurfti. Þar með er ekki sagt að Hannes hafi ekki unnað frelsinu og ekki þráð frelsi til handa sinni þjóð. Þyki okkur nóg um æsinginn og ófyrirleitnina og drullupolla-skvampið í þjóðfélagsumræðunni á okkar dögum þá er hún hátíð hjá því sem tíðkaðist á dögum Hannesar Hafstein þegar menn skirrðust ekki við að bera hver annan hinum verstu sökum á prenti, hnakkrifust, kölluðu hver annan sýfílissjúklinga, fyllibyttur, illmenni og það sem verst var: leirskáld. En þetta er samt svolítið slæmt ennþá og kvæðið „Strikum yfir stóru orðin" á enn erindi við okkur. Það má heita kredó Hannesar Hafstein og það ættu allir að lesa reglulega, ritstjórar, stjórnmálamenn, bloggarar, pistlaskúmar. 1. erindið er svona: „Strikum yfir stóru orðin, / standa við þau minni reynum. / Skjöllum ekki skrílsins vammir,/ skiljum sjálfir hvað vér meinum." Reynum að vanda okkur við það hvernig við tölum og skrifum. Hættum þessu gargi, þessu lýðskrumi, hættum að espa upp verstu kenndir fjöldans, leggjum af þessa ofsafengnu umræðu en reynum heldur að segja það sem við meinum og meina það sem við segjum. Skilja það sem við meinum. Við verðum að reyna að endurheimta orðin. Hannes Hafstein aðhylltist sem sé frelsið – meira en mörg yfirlýst þjóðfrelsishetjan sem fyrst og fremst aðhylltist frelsi stórbænda og höfðingja til að ráða yfir sínu fólki. Hannes aðhylltist frelsi í viðskiptum, frelsi í búsetu og atvinnu, frelsi til að kjósa, tjá sig, lifa sínu lífi. En hann vildi sem sé að frelsið hefði merkingu, inntak. Svona er 2. erindið í kvæðinu: „Fleiprum ei að frelsi höfum, / fyrr en sjálfir hugsa þorum. / Segjum ekki að vér hlaupum / er í sömu hjökkum sporum." Reynum að vera raunsæ, segjum satt, misnotum ekki háleitt orð. Þannig brýnir hann fyrir þjóð sinni að leita frelsis andans, hrista af sér klafa úrelts hugsunarháttar og þrælslundar. En frelsið var líka dýrmætara en svo að við getum eftirlátið það þeim sem hafa gert óréttlæti og misskiptingu gæða að lífshugsjón sinni og leggja að jöfnu frelsi og óheft peningaumsvif. Svona er 3. erindið hjá Hannesi: „Frelsið er ei verðlögð vara, / veitist ei með tómum lögum. / Það er andans eigin dóttir / ekki mynd úr gömlum sögum. // Enginn verður frjáls, þótt fari / feikna-hring í tjóðurbandi. / Mýldur fúnum trúartaumum, / teymist hvergi frelsis-andi." Hannes Hafstein var frelsissinni, frjálslyndur maður. Hann á við okkur brýn erindi: hann orti um lífið og sólina, líka þegar hann stóð í myrkrinu andspænis dauðanum. Hann vegsamaði náttúruöflin – blessað rokið sem allir tala svo illa um að ósekju – og lífsnautnirnar sem mörgum er svo illa við. Hann gerði gys að þjóðernisbelgingi. Hann bað okkur að strika yfir stóru orðin en reyna heldur að standa við þau minni. Hann benti á að frelsi er ekki bara orð sem maður tekur sér, það veitist ekki bara með lagasetningu, það verður ekki metið til fjár, það er ekki „mynd úr gömlum sögum" og það veitist okkur ekki með heitstrengingum og derringi. Það er „andans eigin dóttir".
Það næst ekki í lækni, það verður vonandi úrskurðað um andlát á morgun eða hinn Bjarki Oddsson Skoðun
Það næst ekki í lækni, það verður vonandi úrskurðað um andlát á morgun eða hinn Bjarki Oddsson Skoðun