Það er ekki bara tóm gleði hjá Bradley Cooper þótt hann hafi verið valinn kynþokkafyllsti karlmaður heims því kvikmynd hans, Paradise Lost, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Framleiðslufyrirtækið Legendary Pictures tók þessa ákvörðun eftir að forsvarsmönnum þess þótti einsýnt að kvikmyndin myndi sprengja kostnaðaráætlunina sem hljóðar upp á 120 milljónir dollara.
Cooper átti að leika sjálfan Lúsifer en myndin er innblásin af frægum ljóðabálki eftir John Milton. Leikstjórinn Alex Proyas hafði gert viðamiklar ráðstafanir og áttu tökur að hefjast í Ástralíu innan skamms þegar kallið kom og myndinni var slegið á frest. Aðstandendur myndarinnar hafa lýst því yfir að þessi ákvörðun sé bara tímabundin, unnið sé hörðum höndum að því að lækka framleiðslukostnaðinn og því muni tökur hefjast innan skamms.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem jafnstór mynd er látin ganga gegnum hreinsunareld niðurskurðarhnífsins. Disney tilkynnti á árinu að fyrirtækið hygðist skoða fjármögnun hasar-kúrekamyndarinnar Lone Ranger örlítið betur en Jerry Bruckheimer og Gore Verbinski stóðu að myndinni. Kostnaðurinn við þá mynd var sagður geta sprengt 250 milljón dollara markið en Bruckheimer og Verbinski eru sannfærðir um að þeir geti lækkað hann niður í 215 milljónir, meðal annars með því að semja upp á nýtt við aðalleikarann, Johnny Depp. - fgg
Lífið