Innlent

Brynjar svaf á köldu gólfi í fangelsi í Taílandi

Borghildur og Brynjar. Borghildur býst við að fá vegabréfsáritun til Taílands í vikulokin.
Borghildur og Brynjar. Borghildur býst við að fá vegabréfsáritun til Taílands í vikulokin.
„Brynjar hefur ekkert játað. En við vitum að hann getur fengið tíu til fimmtán ára dóm," segir Eva Davíðsdóttir, systir Brynjars Mettinissonar sem situr í gæsluvarðhaldi í Taílandi vegna gruns um aðild að fíkniefnasmygli.

Borghildur Antonsdóttir, móðir Brynjars, býst við að fá vegabréfsáritun til Taílands í vikulokin. Hún hefur keypt farmiða út fyrir fé frá stuðningsfólki sem gerir henni kleift að vera í landinu í hálft ár. Hún ætlar að fylgjast með réttarhöldum yfir syni sínum í ágúst.

„Við vitum ekki hvað þau verða löng," segir Eva, sem flutti ásamt börnum sínum til Oskarshavn í Svíþjóð um mánaðamótin. Borghildur flutti með til að hjálpa dóttur sinni með heimilishaldið. Þær mæðgur voru ekki búnar að koma sér fyrir þegar Brynjar var handtekinn í Bangkok.

Borghildur fer ein til Taílands. Eva segir erfitt að vita af móður sinni einni í ferðalaginu. Fjölskyldan hafi ekki ráð á að senda nokkurn með henni.

Ræðismaður Íslands í Taílandi hefur útvegað Brynjari lögfræðing. Eva segist ekki vita hvort hann tali ensku og hvort hann hafi hitt Brynjar. Hún hefur eftir kærustu Brynjars, sem talar lélega ensku, að bróðir sinn hafi sofið illa. Í fangelsinu sé ekkert rúm og hafi hann í fyrstu sofið á köldu gólfi með ekkert yfir sér. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×