Handbolti

Stjórnarmaður hjá Fram: Svipað mál kom upp 2009

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, fagnar í leiknum um helgina.
Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, fagnar í leiknum um helgina.
Stjórn handknattleiksdeildar Fram hefur ákveðið að fylgja eftir kæru sinni á Val vegna leik liðanna í undanúrslitum Eimskipsbikarkeppni karla um helgina.

Eins og fram hefur komið telur Fram að Markús Máni Michaelsson hafi ekki verið með leyfi til að spila leikinn með Val.

Forráðamenn handknattleiksdeildar Vals fullyrða að staðið hafi verið skil á öllum pappírsmálum í tæka tíð og að það hefði HSÍ staðfest.

Eftir fund hjá stjórn Fram í dag var ákveðið að halda áfram með málið.

„Við teljum okkur vera með sterk rök og í raun skothelt mál. Við ætlum að fylgja því eftir," sagði Reynir Stefánsson, varaformaður stjórnar handknattleikdsdeildar Fram, í samtali við Vísi. Hann vildi ekki svara staðhæfingum forráðamanna Vals að málið sé tilkomið vegna misskilnings.

„Ég get ekki farið út í nein smáatriði þar sem að Valur á enn eftir að skila inn sinni greinagerð."

„En það er ágætt að rifja það upp að svipað mál kom upp í deildarbikar kvenna árið 2009. Þá var Haukum dæmdur 10-0 sigur gegn Val sem hafði teflt fram ólöglegum leikmanni. Það er sama stjórn hjá Val sem er að gera þetta aftur nú."

„Við treystum dómstólum fyrir þessu máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×