Innlent

Niðurskurður hjá Strætó bitnar á Landspítalanum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Fjöldi starfsmanna Landspítalans treystir á almenningssamgöngur til að komast í og úr vinnu
Fjöldi starfsmanna Landspítalans treystir á almenningssamgöngur til að komast í og úr vinnu
Fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi Strætó bs. munu hafa í för með sér óhagræði fyrir starfsfólk Landspítalans og aukinn kostnað fyrir spítalann.

Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítalans, hefur sent erindi til Strætó bs. þar sem hún vekur athygli á þessum atriðum.

Leiðakerfi Strætó bs. tekur breytingum í lok febrúar. Þá munu vagnar almennt hætta að ganga um klukkustund fyrr á kvöldin. Á laugardagsmorgnum byrja vagnarnir síðan að ganga um tveimur klukkustundum síðar en þeir gera samkvæmt núgildandi kerfi.

Ákvæði í kjarasamningum

Kvöldvöktum á Landspítalanum lýkur klukkan hálf tólf á kvöldin og hafa starfsmenn getað tekið síðustu vagna heim til sín á kvöldin. Eftir breytinguna hætta strætisvagnar að ganga áður en kvöldvöktunum lýkur. Þeir starfsmenn sem vinna morgunvaktir á laugardögum ná heldur ekki að taka strætó í vinnuna eftir að breytingarnar taka gildi.

Algengur texti í kjarasamningum opinberra starfsmanna hljóðar svo: „Hefjist vinnutími starfsmanns eða sé hann kallaður til vinnu á þeim tíma sem almenningsvagnar ganga ekki, skal honum séð fyrir ferð eða greiddur ferðakostnaður. Sama gildir um lok vinnutíma."

Erna segir að hjá vaktavinnufólki á Landspítalanum reyni mikið á þessi ákvæði. „Tilfærsla á þjónustutíma almenningssamgangna hefur því í för með sér óhagræði fyrir starfsmenn og aukinn tilkostnað hjá Landspítala," segir hún.

Fleiri leigubílar

Landspítalinn hefur greitt leigubílakostnað fyrir starfsfólk sitt sem þarf að mæta til vinnu utan þess tíma sem strætisvagnar ganga. Því er ljóst að kostnaður Landspítalans vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu eykst til muna eftir að þjónusta Strætó bs. verður skert.

Áætlað er að nýtt leiðakerfi Strætó bs. taki gildi þann 27. Febrúar 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×