Sport

UMFÍ auglýsir eftir mótshöldurum fyrir landsmót 50 ára og eldri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Áhorfendur fylgjast með unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi í sumar.
Áhorfendur fylgjast með unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi í sumar.

Stjórn ungmennafélags Íslands hefur ákveðið að halda skuli landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri. Nú er auglýst eftir mótshöldurum en áætlað er að fyrsta mótið fari fram í júní næstkomandi.

Fréttatilkynningu stjórnar UMFÍ má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

„Á stjórnarfundi Ungmennafélags Íslands 4. febrúar sl. sem haldinn var í Þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík var samþykkt að auglýsa eftir mótshaldara til að sjá um undirbúning og framkvæmd á fyrsta landsmóti UMFÍ 50+. Þessi samþykkt byggir á samþykktum sem gerðar voru á 46. sambandsþingi og 37. sambandsráðfundi UMFÍ sem haldnir voru 2009 og 2010.

Ungmennafélag Íslands mun óska eftir umsókn frá sambandsaðilum og sveitarstjórnum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd fyrsta Landsmóts UMFÍ 50+ sem haldið verður helgina 24.-26. júní 2011.

Mótið er sérstaklega ætlað einstaklingum 50 ára og eldri.

Framkvæmd mótsins verður í höndum Ungmennafélags Íslands, þeim sambandsaðila sem tekur mótið að sér og því sveitafélagi sem er á staðnum. Aðrir samstarfsaðilar eru Félag áhuga fólks um íþróttir aldraðra, FÁÍA, og Landssamband eldri borgara.

Fyrirhugaðar keppnisgreinar eru golf, pútt, sund, frjálsar, blak, hestaíþróttir, þríþraut, brids, boccía, skák, línudans, hjólreiðar og starfsíþróttir.

Ásamt keppni verður ýmislegt fleira í boði eins og fræðsluerindi og fyrirlestrar um hreyfingu og næringu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×