Innlent

Rima apótek oftast ódýrast

Mynd úr safni / Valli
Rima apótek í Langarima býður oftast lægsta verðið, samkvæmt nýrri könnun verðlagseftirlits ASÍ sem kannaði nýverið verð á ýmsum vörum sem seldar eru í apótekum, svosem snyrtivörum, smokkum og fæðubótarefnum.

Rima apótek var ódýrast í sjö tilvikum af þrjátíuogeinu. Hæsta verðið var oftast í Lyfjum og heilsu, eða í sex tilvikum af 31. Almennt var mikill verðmunur á milli apótekanna, oftast um eða yfir 20%.Munur á lægsta og hæsta verði var frá 12% upp í 105%.

Verðlagseftirlit ASÍ fór apótek víðsvegar á landinu mánudaginn 7. mars.

Ólafsvíkurapótek neitaði þátttöku í könnuninni.

Mestur verðmunur í könnuninni var á ódýrasta kvikasilfurshitamælinum sem var dýrastur á 665 kr. í Skipholtsapóteki og Lyf og heilsu en ódýrastur á 324 kr. í Reykjavíkurapóteki en það gera 341 kr. verðmun eða 105%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á tannþræði, frá Oral-B (satin tape), sem var ódýrastur á 720 kr. í Lyfjavali Álftarmýri og dýrastur á 806 kr. í Lyf og heilsu. Munurinn er 12% eða 86 kr.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna smokka frá Durex 12 stk. í pakka „extra safe" voru dýrastir á 1.873 kr. í Laugarnesapóteki og ódýrastir á 1.437 kr. í Rima apóteki, sem er 436 kr. verðmunur eða 30%.

Þungunarpróf frá „Yes or no" var dýrast á 1.576 kr. í Lyf og heilsu og ódýrast á 1.297 kr. í Rima apóteki, sem er 279 kr. verðmunur eða 22%.

Varasalvi frá „Lasinoh" (10 gr.) var dýrastur á 1.179 kr. í Lyfju og ódýrastur á 800 kr. í Garðsapóteki, sem er 379 kr. verðmunur eða 47%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×