Innlent

Mjög góður fundur, segir Alcoa

Frá Bakka á Húsavík.
Frá Bakka á Húsavík.
Talsmaður Alcoa á Íslandi segir að fundur stjórnenda Alcoa og Landsvirkjunar í New York í gær um álver á Húsavík hafi verið mjög góður. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar.

Óvissa hefur verið um framhald viðræðna eftir að núverandi ríkisstjórn hafnaði að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa í fyrra um álver við Húsavík. Tveir af æðstu ráðamönnum Alcoa lýstu því hins vegar yfir á fundum með iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar í Reykjavík í síðasta mánuði að þeir hefðu enn fullan hug á því að reisa álver fyrir norðan og væru tilbúnir að laga sig að þeirri orku sem býðst í Þingeyjarsýslum.

Forystumenn Landsvirkjunar, með Hörð Arnarson forstjóra í broddi fylkingar, mættu svo í gær í höfuðstöðvar Alcoa í New York og var allt eins búist við að þar myndi verða tekin afgerandi ákvörðun, annaðhvort um að farið yrði í formlegar samningaviðræður eða verkefnið hreinlega slegið af.

Þegar Ragna Sara Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, var nú fyrir hádegi spurð um fundinn í New York í gær sagði hún að Landsvirkjun gæfi engar upplýsingar um viðræður við einstaka viðskiptamenn. Erna Indriðadóttir, talsmaður Alcoa á Íslandi, sagði hins vegar að þetta hefði verið mjög góður fundur en engar ákvarðanir hefðu verið teknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×