Handbolti

Fram fellur frá kærunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Markús er hér annar frá vinstri í umræddum leik.
Markús er hér annar frá vinstri í umræddum leik.
Fram hefur ákveðið að falla frá kæru sinni vegna leik liðsins gegn Val í undanúrslitum Eimskipsbikarkeppni karla.

Þetta kom fram í yfirlýsingu frá stjórn handknattleiksdeildar Fram sem birtist á heimasíðu félagsins í morgun.

Þar kemur fram að Fram hafi ekki áhuga á að vinna til verðlauna með tilstuðlan dómstóla en að það sé engu að síður trú deildarinnar að Valur hafi teflt fram ólöglegum leikmanni í leiknum.

Mikið hefur verið fjallað um málið síðan að það kom upp en Fram vill meina að Markús Máni Michaelsson hafi ekki verið löglegur leikmaður Vals í leiknum.

Í morgun birtist frétt á heimasíðu HSÍ að „vafi sé á að sú framkvæmd sem verið hefur á móttöku leikmannasamninga standist ákvæði reglugerðar HSÍ". Stjórn sambandsins muni taka umrædda framkvæmd til endurskoðunar og reyna að gera reglur skýrari en nú eru.

Yfirlýsingin frá Fram í heild sinni:

„Í ljósi yfirlýsingar HSÍ þar sem lýst er yfir að vafi sé um að sú framkvæmd sem viðhöfð hefur verið standist reglugerðir sambandsins hefur handknattleiksdeild Fram ákveðið að falla frá kæru sinni í tengslum við bikarleik Vals og Fram s.l. sunnudag.

Það er bjargföst trú handknattleiksdeildar Fram að Valur hafi í umræddum leik teflt fram leikmanni án leikheimildar og þar með ólöglegu liði, en að vel athuguðu máli hugnast forsvarsmönnum deildarinnar lítt sú tilhugsun að vinna til verðlauna fyrir tilstuðlan dómstóla.

Handknattleiksdeild Fram harmar skort á samræmi í framkvæmd við útgáfu keppnisleyfa annars vegar og gildandi reglna HSÍ hins vegar, og trúir því og treystir að HSÍ muni færa þau mál til betri vegar.

Fram vill að lokum hvetja handknattleiksáhugamenn til að fjölmenna í Laugardalshöllina og styðja við sitt lið.

Stjórn handknattleiksdeildar Fram"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×