Innlent

Reykjavíkurborg heiðrar Bríeti

Sóley Tómasdóttir lagði til að borgarstjórn myndi heiðra minningu baráttukvenna fyrir kvenfrelsi þann 19. júní ár hvert
Sóley Tómasdóttir lagði til að borgarstjórn myndi heiðra minningu baráttukvenna fyrir kvenfrelsi þann 19. júní ár hvert
Forseti borgarstjórnar, Elsa Hrafnhildur Yeoman, mun leggja blómsveig á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindakonu og bæjarfulltrúa, í Hólavallakirkjugarði til að heiðra minningu baráttukvenna fyrir kvenfrelsi á Kvenréttindadaginn þann 19. júní.

Þetta er í fyrsta sinn sem borgin heiðrar Bríeti á þennan hátt og er það gert í samræmi við tillögu sem Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, lagði fram á síðasta ári.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og var í hópi fyrstu kvenna sem tóku sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908. Athöfnin hefst klukkan 14:30. Að lokinni athöfn verður gengið fylktu liði á Hallveigarstaði þar sem Kvenfélagasamband Íslands og fleiri kvennasamtök verða með hátíðardagskrá og kaffiveitingar í tilefni dagsins.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna sem var samþykkt á síðasta ári:

Borgarráð samþykkir að heiðra minningu baráttukvenna fyrir kvenfrelsi þann 19. júníár hvert frá og með næsta ári. Forsætisnefnd verði falið að útfæra hátíðarhöldin ísamráði við mannréttindaráð.

Greinargerð með tillögunni:

Þann 19. júní 1908 fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi í Reykjavík og

Hafnarfirði og öðluðust þar með sjálfstæði frá eiginmönnum sínum til pólítískrar

þátttöku, en ekkjur og ógiftar konur höfðu þá haft kosningarétt í um aldarfjórðung.

Tveimur árum síðar fengu konur í öðrum sveitarfélögum sömu réttindi.

Kosningaréttur og kjörgengi eru grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi. Það var því

mikill sigur fyrir lýðræðið þegar íslenskar konur öðluðust sjálfstæðan rétt til pólítískra skoðana, en sigurinn var ekki síður kvennapólítískur, þar sem konur voru þar meðleystar undan forræði eiginmanna sinna.

Borgarstjórn Reykjavíkur heiðrar minningu Jóns Sigurðssonar á ári hverju fyrir

ómetanlegt starf hans í þágu sjálfstæðis þjóðarinnar. Vel mætti hugsa sér að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur með svipuðum hætti, enda átti hún ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Það er þó ekki eina leiðin sem hægt er að fara og því brýnt að forsætisnefnd fari yfir málið og útfæri hátíðarhöld sem hæfa þessum merkisdegi í sögu þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×