Innlent

Útrunnir samningar upp á 33 milljarða

Samningar ríkisins við Versló voru endurnýjaðir árið 2007, en þeir hafa ekki verið undirritaðir þótt stjórnendur skólans hafi kallað eftir því.fréttablaðið/gva
Samningar ríkisins við Versló voru endurnýjaðir árið 2007, en þeir hafa ekki verið undirritaðir þótt stjórnendur skólans hafi kallað eftir því.fréttablaðið/gva
Meira en helmingur þjónustusamninga mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru útrunnir, eða 26 af 44. Tæp 30 prósent allra þjónustusamninga ríkisins eru útrunnir.

Kemur þetta fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á samningum ríkisins.

Samkvæmt Fjárlagafrumvarpinu 2011 nema skuldbindingar ríkisins vegna útrunninna þjónustusamninga alls um 33 milljörðum króna á tímabilinu 2011 til 2014. Það eru rúm 20 prósent skuldbindinga ríkisins vegna slíkra samninga.

„Ríkisendurskoðun telur óviðunandi að unnið sé árum saman samkvæmt útrunnum rekstrar- og þjónustusamningum. Mikilvægt er að þeir verði endurnýjaðir sem fyrst,“ segir í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir að það ætti að vera undantekning að verið sé að greiða samkvæmt samningum sem séu útrunnir.

„Menn geta verið sammála um að vinna eftir útrunnum samningum og í flestum tilvikum er það þannig,“ segir Sveinn. „En við erum að horfa til þess að menn hefðu átt að vera vakandi og halda þessu í réttu horfi.“

Þau ráðuneyti sem vinna samkvæmt útrunnum samningum eru: mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

Alls eru þetta 33 samningar af þeim 116 samningum sem Ríkisendurskoðun fór yfir.

Flestir samningar runnu út árið 2010 en allmörg dæmi eru um samninga sem giltu til 2005 og til 2009 og einn sem gilti fram á mitt ár 2001, samningur við Hússtjórnarskólann í Reykjavík.

Þjónustusamningur menntamálaráðuneytis við Verslunarskóla Íslands rann út í lok árs 2005. Ingi Ólafsson skólastjóri segir þó samninginn hafa verið endurnýjaðan árið 2007 og þá hafi verið gengið frá öllum formsatriðum samningsins, að því undanskildu að undirrita hann.

„Samningurinn var allur endurunninn, það var gengið frá öllum formsatriðum og allir voru sammála um hann. En af einhverjum ástæðum fórst alltaf fyrir að undirrita hann,“ segir Ingi og bætir við að stjórnendur skólans hafi þó kallað eftir því við ráðuneytið. Unnið hefur verið samkvæmt þeim samningi síðan hann var gerður árið 2007, en samkvæmt fjárlögum fær Verslunarskólinn 858,5 milljónir á ári.

„Samstarf okkar við ráðuneytið hefur alltaf verið mjög gott þannig að við vorum ekki að missa svefn yfir þessu,“ segir Ingi.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×