Ólgandi umferðarreiði Ragnheiður Tryggadóttir skrifar 3. febrúar 2011 05:45 Bílaröðin fram undan var þétt, bíll við bíl fram að næstu ljósum og ég sá að ég kæmist ekki á réttum tíma á áfangastað. Við því var ekkert að gera, ég var á ferðinni á háannatíma í ljósaskiptunum og auk þess var slydda. Ég kveikti því á útvarpinu og sló taktinn með fingrunum á stýrið. Sallaróleg. Þar sem ég raulaði létt tók ég eftir að bílaröðin við hliðina á mér gekk einhverra hluta vegna hraðar. Bílarnir runnu fram úr mér einn af öðrum en ég reyndi að láta það ekkert á mig fá. Þegar ég hafði ekki hreyfst teljanlega úr stað í nokkrar mínútur fór mér þó að leiðast þófið. Það þykknaði í mér. Með semingi hleypti ég bíl inn í röðina fyrir framan mig þótt hann ætti það varla skilið. Ég var búin að bíða lengur en hann! Ég uppskar flaut frá þeim sem fyrir aftan mig sátu, enda komust þeir ekkert áfram fyrir vikið. Í baksýnisspeglinum sá ég bílstjórann fyrir aftan mig senda mér tóninn, allavega steytti hann hnefann. Sjálfsagt á hraðferð. Það þykknaði enn meira í mér. Sjálf var ég á hraðferð og nú tók ég eftir því hvernig fram eftir allri röðinni voru bílar að troða sér inn í mína röð, eftir að hafa komist eins langt áfram og þeir gátu á hinni akreininni. Tilætlunarsamir settu þeir stefnuljósið á og potuðu sér með frekju yfir strikalínuna, þar til einhver gaf eftir plássið. Hnúarnir hvítnuðu þegar ég kreisti stýrið og ég ákvað að hleypa engum yfir. Umferðarreiðin náði heljartökum á mér og fyllti mig kappi. Ég flautaði, steytti hnefann og hellti ókvæðisorðum yfir samferðamenn mína, í öryggi þess auðvitað að ekki heyrðist milli bíla. Ég kom sjálfri mér á óvart með krassandi blótsyrðum og skeytti ekkert um hneykslunarsvipinn á pelsklæddri frú í bílnum við hliðina á mér. Öll kurteisi var rokin út í veður og vind. Í frelsandi æsingnum gleymdi ég stund og stað, og líka hvert ég var að fara. Þegar ég sá að ég var alls ekki á beygjuakreininni þar sem ég þurfti að vera bráði snarlega af mér. Ég seig niður í sætinu og forðaðist að líta í baksýnisspegilinn, hvað þá til hliðanna. Rjóð í vöngum setti ég stefnuljósið á og reyndi að pota mér yfir strikalínuna. Sú pelsklædda virti mig ekki viðlits. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Hefur þú tilkynnt um ofbeldi gegn barni? Alfa Jóhannsdóttir Skoðun Hvernig tryggjum við samkeppnishæfni þjóðar? Jón Skafti Gestsson Skoðun NPA breytti lífinu mínu Sveinbjörn Eggertsson Skoðun Gildi kærleika og mannúðar Toshiki Toma Skoðun Valdið og samvinnuhugsjónin Kjartan Helgi Ólafsson Skoðun Stöðvum glæpagengi á Íslandi Hjalti Vigfússon Skoðun Hópnauðganir/svartheimar! Davíð Bergmann Skoðun Grafarvogsgremjan Þorlákur Axel Jónsson Skoðun Gremjan í Grafarvogi Davíð Már Sigurðsson Skoðun Flottu kjötauglýsingarnar í blöðunum... Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Bílaröðin fram undan var þétt, bíll við bíl fram að næstu ljósum og ég sá að ég kæmist ekki á réttum tíma á áfangastað. Við því var ekkert að gera, ég var á ferðinni á háannatíma í ljósaskiptunum og auk þess var slydda. Ég kveikti því á útvarpinu og sló taktinn með fingrunum á stýrið. Sallaróleg. Þar sem ég raulaði létt tók ég eftir að bílaröðin við hliðina á mér gekk einhverra hluta vegna hraðar. Bílarnir runnu fram úr mér einn af öðrum en ég reyndi að láta það ekkert á mig fá. Þegar ég hafði ekki hreyfst teljanlega úr stað í nokkrar mínútur fór mér þó að leiðast þófið. Það þykknaði í mér. Með semingi hleypti ég bíl inn í röðina fyrir framan mig þótt hann ætti það varla skilið. Ég var búin að bíða lengur en hann! Ég uppskar flaut frá þeim sem fyrir aftan mig sátu, enda komust þeir ekkert áfram fyrir vikið. Í baksýnisspeglinum sá ég bílstjórann fyrir aftan mig senda mér tóninn, allavega steytti hann hnefann. Sjálfsagt á hraðferð. Það þykknaði enn meira í mér. Sjálf var ég á hraðferð og nú tók ég eftir því hvernig fram eftir allri röðinni voru bílar að troða sér inn í mína röð, eftir að hafa komist eins langt áfram og þeir gátu á hinni akreininni. Tilætlunarsamir settu þeir stefnuljósið á og potuðu sér með frekju yfir strikalínuna, þar til einhver gaf eftir plássið. Hnúarnir hvítnuðu þegar ég kreisti stýrið og ég ákvað að hleypa engum yfir. Umferðarreiðin náði heljartökum á mér og fyllti mig kappi. Ég flautaði, steytti hnefann og hellti ókvæðisorðum yfir samferðamenn mína, í öryggi þess auðvitað að ekki heyrðist milli bíla. Ég kom sjálfri mér á óvart með krassandi blótsyrðum og skeytti ekkert um hneykslunarsvipinn á pelsklæddri frú í bílnum við hliðina á mér. Öll kurteisi var rokin út í veður og vind. Í frelsandi æsingnum gleymdi ég stund og stað, og líka hvert ég var að fara. Þegar ég sá að ég var alls ekki á beygjuakreininni þar sem ég þurfti að vera bráði snarlega af mér. Ég seig niður í sætinu og forðaðist að líta í baksýnisspegilinn, hvað þá til hliðanna. Rjóð í vöngum setti ég stefnuljósið á og reyndi að pota mér yfir strikalínuna. Sú pelsklædda virti mig ekki viðlits.