Innlent

Fórnarlömb nauðgana gefi öðrum ekki blóð

Ströngum reglum er fylgt í Blóðbankanum til að hindra að smitað blóð berist þaðan í sjúklinga sem þurfa blóðgjöf. Vændiskonur og fólk sem hefur verið nauðgað má ekki gefa blóð. Heldur ekki þeir sem hvorki lesa né skilja íslensku.
Ströngum reglum er fylgt í Blóðbankanum til að hindra að smitað blóð berist þaðan í sjúklinga sem þurfa blóðgjöf. Vændiskonur og fólk sem hefur verið nauðgað má ekki gefa blóð. Heldur ekki þeir sem hvorki lesa né skilja íslensku.
„Á hverju ári þurfum við að vísa um það bil tvö þúsund manns frá um lengri eða skemmri tíma vegna heilsufars, sögu um veikindi, lyfjanotkunar, aðgerða, ferðalaga, bólusetninga og fleira,“ segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir í Blóðbankanum.

 

Í reglugerð frá heilbrigðisráðuneytinu er lagt fyrir Landspítalann að reka blóðbanka sem hafi gæðakerfi í samræmi við leiðbeiningar sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. „Fyllsta öryggis skal ávallt gætt við vinnslu með blóð til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma í samræmi við leiðbeiningar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar,“ segir enn fremur í reglugerðinni.

 

Sveinn segir skimun gegn lifrarbólgu hafa byrjað árið 1971, fyrir HIV árið 1985 og fyrir lifrarbólgu C (HCV) 1992. „Við þekkjum ekki til neins tilfellis á síðustu tíu árum þar sem einstaklingur hefur fengið veirusmit vegna blóðhluta,“ svarar Sveinn aðspurður.

Eins og sagði í Fréttablaðinu á fimmtudag er körlum sem haft hafa samfarir við aðra karla vísað frá vegna ótta við sjúkdóma sem smitast með blóði. Ýmsir aðrir eru taldir til áhættuhópa. Fórnarlömb nauðgana og þeir sem fengið skartgripagötun eða verið til heimils á sama stað og einhver með lifrarbólgusmit mega til dæmis ekki gefa blóð í hálft ár á eftir.

 

Þá eru sérstakar reglur varðandi fólk sem fætt er utan Íslands. Það má gefa blóð þegar það hefur verið hér í minnst þrjá mánuði og er frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Evrópu, Kanada eða Nýja-Sjálandi. Um fólk af öðru þjóðerni gildir sex mánaða regla. Allir blóðþegar verða þó að geta lesið og skilið íslensku. „Ef tjáskiptaörðugleikar eru til staðar skal vísa blóðgjafa frá,“ segir í reglum Blóðbankans.

 

Þeir sem stunda vændi mega ekki gefa blóð. Sá sem haft hefur mök við þann sem stundar vændi má ekki gefa blóð í eitt ár á eftir. Sumir sjúkdómar sem fólk hefur og lyf sem það tekur við þeim koma í veg fyrir að það sé gjaldgengt sem blóðgjafar. Alnæmi, HIV og krónískur astmi og hjartsláttartruflanir eru þar á meðal. Einnig geðveiki, gigtsótt, langvinn áfengissýki, efnaskiptasjúkdómar, lifrar-, nýrna- og lungnasjúkdómar og krabbamein. Og ef fólk hefur verið bitið af öðrum manni má það ekki gefa blóð næstu sex mánuði. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×