Innlent

Lögreglan verndi fólk gegn glæpaklíkum

Heimir Már Pétursson skrifar
Innanríkisráðherra skorar á fólk sem hefur verið ógnað af glæpaklíkum að gefa sig fram við lögreglu, sem veiti fólki í slíkri stöðu vernd.

Innanríkisráðherra boðaði fyrir helgi framlagningu frumvarps sem gefa mun lögreglu sérstakar rannsóknarheimildir vegna skipulegrar glæpastarfsemi og ríkisstjórnin hefur samþykkt viðbótarframlag til lögreglu upp á 47 milljónir vegna þessa. Vítisenglarnir hér á landi, áður Fáfner, fékk aðild að alþjóðasamtökum Vítisengla um helgina. Ráðherra segir að bakgrunnur félaga í þessum hópi verði skoður og fylgst betur með starfsemi hans.

Ögmundur segir að vel hafi verið fylgst með fréttamannafundi hans og lögreglunnar fyrir helgi í Noregi, en nokkrum Íslendingum var snúið við á flugvellinum í Osló fyrir helgi.

Mikilvægt sé að nú ætli yfirvöld að snúa vörn upp í sókn. Ráðherra segist hafa vitneskju um að fólki hafi verið hótað og það þvingað til að greiða glæpagengjum verndarfé.

Viltu skora á fólk sem kann að hafa orðið fyrir svona ógnunum að hafa samband við lögregluyfirvöld, og ef fólk gerir það, fær það þá vernd frá lögreglu?

„Ég vil tvímælalaust skora á fólk að gera það. Það þarf að opna þetta kýli allt saman, þeir sem eru beittir ofbeldi þeir eiga að láta af því vita og þá er það líka mikilvægt að það þarf að veita fólki vernd. Og það hefur verið gert í tilteknum málum," segir Ögmundur.

Og lögreglan hefur bolmagn til þess?

„Hún þarf að fara bolmagn til þess," segir Ögmundur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×