Innlent

Púðursnjór í borginni

Töluvert snjóaði á höfuðborgarsvæðinu í alla nótt og var djúpur jafnfallinn snjór yfir öllu snemma í morgun, en vindur fremur hægur þannig að lítið dró í skafla. Snjórinn er líklega að minnsta kosti  15 sentímetra djúpur, en veðurstofan mælir dýptina ekki fyrr en klukkan níu.

Þæfingur er á öllum götum þar sem ekki er rutt og er búist við að morgunumferðin gangi mjög hægt. Svo á vindur að snúast í norðanátt upp úr hádegi og blása af 8 til 15 metrum á sekúndu þannig að búast má við miklum skafrenningi, þar sem þetta er svonefndur púðursnjór.

Á þriðja tug umferðaróhappa urðu í umferðinni á höuðborgarsvæðinu í gær, sem rakin eru til slæmrar færðar og hálku, en engin slasaðist alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×