Innlent

Sjö tonn af olíu voru í togaranum

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Viðbragðskerfi Umhverfisstofnunar vegna bráðamengunar var ræst í dag þegar tilkynning barst um að gat hefði komið á olíutank á togaranum Eldborgin. Skipið sigldi á ísjaka á Grænlandsmiðum.

Gatið var um þrjátíu sentimetra langt en um sjö tonn af olíu voru um borð í skipinu.

Skipið er nú komið til Hafnarfjarðar þar sem kafarar hafa nú þétt gatið til bráðabirgða en á þessum myndum má sjá olíuna streyma úr skipinu á meðan kafarar unnu að því að þétta gatið.

Ómar Hafliðason, kafari hjá Köfunarþjónustunni sem þétti gatið á Eldborginni í dag, segir það erfitt verk að kafa í olíuleka.

„Það er svolítið vandasamt að kafa niður í svona olíuleka. Olía er léttari sjór og stígur upp á yfirborðið, kafarinn verður því að passa sig vera undir lekanum. Maður getur þá misst svolítið áttir og erfitt getur verið að átta sig á því hvar maður er á skipinu, maður sér ekkert upp fyrir sig," segir Ómar.

Eftir að hafa fundið gatið sótti Ómar tréfleyg til að þétta til bráðabirgða á meðan olíunni var dælt upp úr skipinu.

„Það hætti að leka þarna fljótlega, þegar ég var búinn að reka fleyginn í. Þetta fór mjög vel, þetta var ekkert svo mikið að það var mikil hætta á ferðum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×