Innlent

Staðfesti gæsluvarðhald yfir meintum nauðgara

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem er grunaður um að hafa nauðgað konu inn á salerni á skemmtistað í Reykjavík um síðustu helgi. Maðurinn sætir gæsluvarðhaldi til 11. febrúar samkvæmt úrskurði Hæstaréttar.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins á skemmtistað í Reykjavík. Eftir því sem næst verður komist var konan, sem einnig er á fimmtugsaldri, mjög ölvuð á staðnum. Í gæsluvarðhaldsdómi héraðsdóms kemur fram að tvær konur hafi komið með konuna á slysadeild vegna grunsemda um nauðgun.

Konurnar tvær komu að konunni rænulausri vegna ofneyslu áfengis á salerninu og hafi sokkabuxur og nærbuxur verið dregnar niður um hana að hluta til. „Þær hafi mætt kærða á leiðinni út af salerninu og átt orðaskipti við hans. Muni hann hafa gefið í skyn við aðra þeirra að hann hefði haft samræði við A (konuna innsk.blm.) á salerninu," segir í gæsluvarðhaldsdómnum.

Á öryggismyndavélum skemmtistaðarins sést að maðurinn fer inn á klósettganginn með konunni. Hann hefur játað að hann sé á myndskeiðinu en getur engar skýringar gefið á því hvers vegna hann hafi sést þar með konunni. Hann hefur neitað því að haft samræði eða önnur kynferðisleg samskipti við konuna.

Í lífsýnum úr leggöngum konunnar, stuttu eftir komu hennar á slysadeild, hafi sést nýlegar sáðfrumur, sem ekki séu taldar meira en sólarhrings gamlar. Lífsýnin verða send til Svíþjóðar til DNA rannsóknar. Rannsókn málsins er á lokastigi.

Umræddur maður er erlendur ríkisborgari en hefur unnið hér á landi um skeið og segir í gæsluvarðhaldsdómnum að til hafi staðið að hann héldi til heimalands síns aftur. „Ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi gangi hann laus," segir í gæsluvarðhaldsdómnum. Hann hefur ekki komið við sögu hjá lögreglu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×