Sport

Ragna er komin í undanúrslit - strákarnir úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragna Ingólfsdóttir.
Ragna Ingólfsdóttir.
Ragna Ingólfsdóttir er komin í undanúrslit í einliðaleik kvenna á Iceland International badmintonmótinu sem fer fram í íþróttahúsi TBR við Gnoðarvog. Ragna sló út enska stúlku í átta manna úrslitunum og mætir Louise Hansen frá Danmörku í undanúrslitunum.

Ragna vann sigur á Helena Cable frá Englandi í tveimur hrinum í morgun en þær fóru 21-16 og 21-5. Ragna vann þá seinni af öryggi eftir smá spennu í þeirri fyrri.

Aðrar í undanúrslitum eru Sara B. Kverno frá Noregi og Akvile Stapusaityte frá Litháen. Leikur Söru við Zuzana Pavelkova frá Tékklandi í átta manna úrslitum var hörkuspennandi en honum lauk ekki fyrr en eftir 64 mínútna leik. Sara lenti undir eftir 11-21 tap í fyrstu hrinu en vann síðan 21-16 og 30-28.

Í einliðaleik karla eru allir íslensku keppendurnir úr leik en Magnús Ingi Helgason og Kári Gunnarsson duttu úr leik í átta manna úrslitum í morgun fyrir dönskum og sænskum andstæðingum.

Í undanúrslitum spila Mathias Kany frá Danmörku sem sló út Florian frá Tékklandi sem var raðað númer eitt inn í einliðaleik karla, Tony Stephenson frá Írlandi, Raj Popat frá Wales og Marhias Borg frá Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×