Körfubolti

Friðrik og Einar Árni taka við Njarðvíkurliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Árni þjálfaði síðast Breiðablik í efstu deild.
Einar Árni þjálfaði síðast Breiðablik í efstu deild.
Njarðvíkingarnir Friðrik Ragnarsson og Einar Árni Jóhannsson munu í sameiningu taka við meistaraflokksliði Njarðvíkur í körfuboltanum en Sigurður Ingimundarson hætti sem þjálfari liðsins í gær. Leikmönnum var tilkynnt um nýju þjálfarana á leikmannafundi í kvöld.

Friðrik og Einar Árni hafa báðir gert Njarðvíkinga að Íslands- og bikarmeisturum en Friðik þjálfaði liðið frá 2000 til 2004 og Einar Árni tók við af honum og var með liðið frá 2004 til 2007.

Friðrik gerði Njarðvíkinga að Íslandsmeisturum 2001 og 2002 og liðið vann bikarinn undir hans stjórn árið 2002. Einar Árni gerði Njarðvík að Íslandsmeisturum 2006 og liðið varð bikarmeistari undir hans stjórn árið áður.

Það hefur lítið gengið hjá Njarðvík í körfunni vetur en liðið er í 10. sæti Iceland Express deild karla og datt út fyrir Haukum í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins á sunnudaginn. Það reyndist vera síðasti leikur liðsins undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar sem er búinn að þjálfa liðið frá haustinu 2009 þegar hann tók við liðinu af bróður sínum Vali Ingimundarsyni.

Fyrsti leikur Njarðvíkurliðsins undir stjórn þeirra Einars Árna og Friðriks verður á móti ÍR í Ljónagryfjunni í Njarðvík á sunnudagskvöldið. Liðin eru í 10. og 11. sæti deildarinnar og eins og staðan er núna þá er þetta leikur upp á líf og dauða í fallbaráttunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×