Björk á bók Gerður Kristný skrifar 10. október 2011 06:00 Norskur rithöfundur, Mette Karlsvik, gefur brátt út skáldsögu um tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og fjölskyldu hennar. Þetta kom fram á mbl.is og Fréttablaðinu í síðustu viku og sagt að bókin eigi að heita „Bli Björk“. Blaðamaður norska Dagbladet flutti söngkonunni þessi tíðindi og hafði eftir henni að þau kæmu henni mjög á óvart. Nokkur tengsl hefur hin norska Mette við Ísland því fyrr á þessu ári kom út bók hennar „Post oske. Dagar og netter i Reykjavik“. Þar fjallar hún um það hvernig landið kemur henni fyrir sjónir eftir hrun og samkvæmt dómi sem ég fann um bókina á netinu spjallaði hún við nafntogaða íslenska karla um orsök þess og afleiðingar. Norðmaðurinn er ekki fyrsti skáldsagnahöfundurinn sem verður fyrir innblæstri af Björk því árið 2002 kom út í Frakklandi bókin „Le quart d’heure islandais“ eftir höfund að nafni Tania de Montaigne. Á íslensku útleggst titillinn sem „Íslenska korterið“ og er þar vísað til orða Andy Warhol þess efnis að allir fái sínar fimmtán mínútur af frægð. Tveimur árum áður en bók Taniu kom út hafði Björk vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún var valin besta leikkonan fyrir frammistöðuna í Myrkradansara Lars von Trier. Tania hafði greinilega veitt Björk athygli og haft hraðar hendur við skrifin. Ég las þessa bók og var, man ég, eilítið hugsi yfir þeirri ákvörðun útgáfunnar að hafa mörgæsir framan á kápunni, fiðurfé sem ekki einu sinni hafði verið til sýnis í Sædýrasafninu en var nú ætlað að tengja söguna við Ísland. Bók Taniu de Montaigne er satíra um sjálfhverfa íslenska leikkonu sem heitir því undarlega nafni Emyrka Rerc. Emyrka er komin á kvikmyndahátíðina í Cannes til að láta til sín taka áratugum eftir að hafa verið verðlaunuð þar. Þetta er ekkert skemmtileg bók og lauk ég við hana af hreinni þrjósku en auðvitað líka í von um að hún skánaði. Sem hún gerði ekki. Aðeins ein gagnrýni finnst um „Íslenska korterið“ á frönsku amazón-netversluninni og endar hún á orðunum: Mikil vonbrigði. Tania hefur skrifað nokkrar bækur síðan en það sem hún hefur helst fengist við að undanförnu er að semja og flytja eigin lög og texta. Björk hefur ef til vill haft meiri áhrif á líf hennar en hægt var að ímynda sér í fyrstu. Íslenska þjóðin hlýtur að fara fram á það við Mette Karlsvik að hún skrifi fallega um Björk og alla hennar fjölskyldu, annars verði Hugleiki falið að teikna Sissel Kyrkjebø-skrípó. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Norskur rithöfundur, Mette Karlsvik, gefur brátt út skáldsögu um tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og fjölskyldu hennar. Þetta kom fram á mbl.is og Fréttablaðinu í síðustu viku og sagt að bókin eigi að heita „Bli Björk“. Blaðamaður norska Dagbladet flutti söngkonunni þessi tíðindi og hafði eftir henni að þau kæmu henni mjög á óvart. Nokkur tengsl hefur hin norska Mette við Ísland því fyrr á þessu ári kom út bók hennar „Post oske. Dagar og netter i Reykjavik“. Þar fjallar hún um það hvernig landið kemur henni fyrir sjónir eftir hrun og samkvæmt dómi sem ég fann um bókina á netinu spjallaði hún við nafntogaða íslenska karla um orsök þess og afleiðingar. Norðmaðurinn er ekki fyrsti skáldsagnahöfundurinn sem verður fyrir innblæstri af Björk því árið 2002 kom út í Frakklandi bókin „Le quart d’heure islandais“ eftir höfund að nafni Tania de Montaigne. Á íslensku útleggst titillinn sem „Íslenska korterið“ og er þar vísað til orða Andy Warhol þess efnis að allir fái sínar fimmtán mínútur af frægð. Tveimur árum áður en bók Taniu kom út hafði Björk vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún var valin besta leikkonan fyrir frammistöðuna í Myrkradansara Lars von Trier. Tania hafði greinilega veitt Björk athygli og haft hraðar hendur við skrifin. Ég las þessa bók og var, man ég, eilítið hugsi yfir þeirri ákvörðun útgáfunnar að hafa mörgæsir framan á kápunni, fiðurfé sem ekki einu sinni hafði verið til sýnis í Sædýrasafninu en var nú ætlað að tengja söguna við Ísland. Bók Taniu de Montaigne er satíra um sjálfhverfa íslenska leikkonu sem heitir því undarlega nafni Emyrka Rerc. Emyrka er komin á kvikmyndahátíðina í Cannes til að láta til sín taka áratugum eftir að hafa verið verðlaunuð þar. Þetta er ekkert skemmtileg bók og lauk ég við hana af hreinni þrjósku en auðvitað líka í von um að hún skánaði. Sem hún gerði ekki. Aðeins ein gagnrýni finnst um „Íslenska korterið“ á frönsku amazón-netversluninni og endar hún á orðunum: Mikil vonbrigði. Tania hefur skrifað nokkrar bækur síðan en það sem hún hefur helst fengist við að undanförnu er að semja og flytja eigin lög og texta. Björk hefur ef til vill haft meiri áhrif á líf hennar en hægt var að ímynda sér í fyrstu. Íslenska þjóðin hlýtur að fara fram á það við Mette Karlsvik að hún skrifi fallega um Björk og alla hennar fjölskyldu, annars verði Hugleiki falið að teikna Sissel Kyrkjebø-skrípó.