Innlent

Fékk milljón fyrir að giftast til málamynda

Valur Grettisson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Asísk kona hafði betur gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, en í dómi sem féll í gær, var úrskurði dómsmála- og mannréttindaráðuneytis frá febrúar á síðasta ári, þar sem staðfest var ákvörðun Útlendinga­stofnunar frá maí 2009, um að synja konunni um dvalarleyfi, ógiltur.

Málið er hinsvegar athyglisvert fyrir þær sakir að eiginmaður konunnar, sem íslenskur, játaði fyrir Útlendingastofnun, að hann hefði gifst konunni til málamynda og fengið að auki eina milljón greidda fyrir.

Útlendingastofnun tók viðtal við hjónin til þess að kanna hvort hjónabandið væri til málamynda. Rætt var við þau í sitthvoru lagi og þess krafist að þau undirrituðu plagg um að hjónabandið væri sannarlega raunverulegt.

Konan skrifaði undir en eiginmaðurinn neitaði, því hann vildi ekki halda blekkingunni áfram að eigin sögn

Hann játaði að hafa gifst konunni eftir að félagi hans, sem var giftur tælenskri konu, kynnti hann fyrir henni. Hann féllst á að giftast konunni fyrir eina milljón króna en hann hafði ákveðið að fara í nám. Hann hafi hinsvegar haft of háar tekjur til þess að fá námslán og því þurft peninginn. Konan starfaði í verslun á höfuðborgarsvæðinu á meðan eiginmaðurinn bjó og lifði á Akureyri.

Eiginkonan hélt því fram fyrir Héraðsdómi að hún hafi ekki frétt af framburði eiginmannsins fyrr en eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja henni dvalarleyfi, var tekin. Hún hafi því ekki fengið að verja sig sem skyldi.

Héraðsdómur féllst á þessi rök og sagði stofnunina ekki hafa virt reglur um málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum. Konan vann því málið þrátt fyrir ótvíræðar sannanir um málamyndahjónaband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×