Innlent

Áhersla lögð á fyrirvara Alþingis

Í nefndinni sitja formenn samningahópa, sem hver sér um afmarkað svið. Formaður hóps um sjávarútvegsmál er Kolbeinn Árnason. Hann kynnti á rýnifundi í gær íslensk lög um sjávarútveg. fréttablaðið/gva
Í nefndinni sitja formenn samningahópa, sem hver sér um afmarkað svið. Formaður hóps um sjávarútvegsmál er Kolbeinn Árnason. Hann kynnti á rýnifundi í gær íslensk lög um sjávarútveg. fréttablaðið/gva
Áhersla var lögð á mikilvægi íslensks sjávarútvegs fyrir þjóðarhag og greint frá árangri Íslands við stjórnun fiskveiða á seinni rýnifundi Íslands og Evrópusambandsins, sem lauk í Brussel í gær, að því er kemur fram í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Sérstök áhersla hafi og verið lögð á þá fyrirvara sem koma fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar. Téð álit er eins konar vegvísir samningafólks Íslands í aðildarviðræðunum.

Samningahópur um sjávarútvegsmál minnti meðal annars á fyrirvara um forræði íslenskra stjórnvalda yfir sjávarauðlindinni, með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi, og einnig á hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Þá var áhersla lögð á það að „Íslendingar fari með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum eins og hægt er þannig að réttindi Íslands verði sem best tryggð,“ eins og segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins. Einnig er minnt á andstöðu Íslendinga við reglur ESB, sem heimila brottkast.

Að auki var rætt um að takmarka fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi, til að tryggja að ágóðinn félli til á Íslandi. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×