Handbolti

Fyrsti undanúrslitaleikur HK-stelpna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Anton
Fram og HK mætast í kvöld í seinni undanúrslitaleik Eimskipsbikars kvenna en í boði er sæti í bikarúrslitaleiknum á móti Íslandsmeisturum Vals í Laugardalshöllinni. Leikurinn hefst klukkan 20.00 í Framhúsinu í Safamýrinni.

Það er mikill munur á reynslu þessara tveggja félaga í undaúrslitum bikarkeppni kvenna því á meðan Framstelpur eru að spila sinn 22. undanúrslitaleik í bikarnum þá er HK búið að ná sögulegum árangri með því að komast í undanúrslitin í fyrsta sinn. Fram hefur unnið 15 af 21 undanúrslitaleik sínum þar af þá fjóra síðustu.

Framliðið er mun sigurstranglegra í þessum leik enda búinn að vinna tvo leiki liðanna í vetur með 19 mörkum að meðaltali í leik. Fram vann 41-13 sigur í Digranesinu í október og 30-20 sigur í Framhúsinu í síðasta mánuði.

HK sló mjög óvænt út Stjörnuna í átta liða úrslitum með 30-29 sigri á heimavelli sínum en Framliðið vann þá 33 marka sigur, 46-13, á b-liði Vals.

Fram á möguleika á því að komast í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð en liðið vann 29-20 útisigur á FH í undanúrslitunum í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×