Viðskipti innlent

Kristján og Sigurður segja sig úr Lotnu - Fótboltastjarna í stjórn

Valur Grettisson skrifar
Flateyri.
Flateyri.
Bæði Kristján Sigurður Kristjánsson og Sigurður Aðalsteinsson hafa sagt sig úr stjórn fyrirtækisins Lotnu ehf., sem gerði samning um kaup á öllum eigum þrotabús Eyrarodda á Flateyri fyrir skömmu.

Í staðinn hafa synir þeirra tekið sæti í stjórn félagsins, en það eru þeir Gylfi Þór Sigurðsson, sem er frægastur fyrir að vera atvinnumaður í fótbolta í Þýskalandi, Ólafur Már Sigurðsson og Þorgrímur Laufar Kristjánsson.

Það var RÚV sem greindi frá því í kvöldfréttum sínum að hátt í 20 fyrirtæki sem Sigurður og Kristján hafa stýrt, hafa farið í gjaldþrot. Annar eigendanna, Kristján, hefur hlotið dóm fyrir stórfellt brot á fiskveiðilöggjöfinni.

Gylfi Þór Sigurðsson sest í stjórn félagsins.
Langflest fyrirtækjanna tengjast útgerð og fiskvinnslu. Þau hafa gert mikið út á leigukvóta sem gæti skýrt bága stöðu sumra þeirra fyrirtækja sem um ræðir samkvæmt frétt RÚV.

Um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir Flateyri en þegar Eyraroddi fór í gjaldþrot misstu fjöldi starfsmanna vinnuna. Nú þegar hefur verið gengið frá ráðningu 28 starfsmanna.

Samkvæmt RÚV þá kemur stjórn Byggðastofnunar saman á morgun. Stjórnin hefur ekki komið saman síðan samningar náðust milli Lotnu og Eyrarodda. Byggðastofnun þarf að samþykkja kaupin og líklegt er talið að málefni Lotnu verði tekin upp á fundinum.

Þegar Fréttastofa leitaði viðbragða hjá eigendunum í kvöld fengust þau svör að yfirlýsing yrði gefin út um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×