Matur

Sænsk-íslensk matarreisa

Lárus Gunnar Jónasson á Fiskfélaginu.
Lárus Gunnar Jónasson á Fiskfélaginu. Mynd/Vilhelm
Á Fiskfélaginu kætast bragðlaukar í Íslandsferð með sænskum fararstjóra.

„Hann er frumlegur og djarfur matreiðslumaður sem passar Fiskfélaginu vel,“ segir Lárus Gunnar Jónasson matreiðslumeistari á Fiskfélaginu, um sænska sælkerakokkinn Andreas Andersson sem þar sýnir listir sínar á matar- og menningarhátíðinni Food and Fun.

„Þrátt fyrir ungan aldur hefur Andreas skapað sér góðan orðstír og er nú einn af heitustu og eftirsóttustu kokkum Norðurlanda. Hann starfar sem yfirkokkur á veitingastaðnum Carls, sem er flottasti og vinsælasti veitingastaður Oslóar, en áður hefur hann matreitt víða um Norðurlönd, sem og á Sketch í Lundúnum undir strangri handleiðslu Pierre Gagnaire, sem er franskur guð í heimi matarmenningar,“ segir Lárus sem bíður spenntur eftir liðsauka Andreasar við Fiskfélagið.

„Andreas hefur aldrei komið til Íslands en hlakkar til að vinna með íslenskum kokkum. Matseðill hans lofar góðu og samvinna okkar býður upp á dásamlega upplifun fyrir bragðlaukana. Við munum aðstoða Andreas með ferskt, íslenskt hráefni en hans hæfileikar felast í að prófa eitthvað nýtt sem svo blandast við matarupplifun Fiskfélagsins sem nefnist Ferðalag um Ísland. Þetta verður því einskonar sænsk-íslensk matarreisa,“ segir Lárus hress.

„Andreas verður með forvitnilega nálgun á humar, lax og þorsk, gerir fjórar mismunandi útfærslur af íslensku lambakjöti, freistandi skyrpinna í eftirrétt ásamt ekta sænskri gulrótarköku, því eins og sannur Svíi elskar hann gulrætur,“ upplýsir Lárus og hvetur fólk til að festa sér borð strax þar sem vinsældir Food and Fun séu miklar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.