Innlent

Forseti fær minna en handhafar halda sínu

Ólafur Ragnar
Ólafur Ragnar
Launalækkun sem forseti Íslands fór fram á í árslok 2008 nær ekki til staðgengla hans. Forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar þáðu um 1,6 milljónir króna hver á síðasta ári fyrir að gegna starfi handhafa forsetavalds þegar forsetinn var erlendis.

Þótt laun þingmanna, ráðherra og forsetans hafi lækkað eftir hrunið lækkuðu greiðslur til handhafa forsetavaldsins ekki, samkvæmt upplýsingum frá embætti forseta Íslands. Þetta uppgötvaðist við yfirferð yfir ársreikning embættisins, og hefur þegar verði gerð athugasemd vegna þessa.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýsti þessum greiðslum þannig sumarið 2009 að þær væru „2007“ og hún vildi afnema þær. Frumvarp, þar sem lagt var til að þær yrðu skertar um áttatíu prósent, var lagt fram á Alþingi í ágúst 2009. Það sofnaði í nefnd og sefur þar enn.

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, segir hana fyrst nýlega hafa frétt af því að laun forsetans hafi verið lækkuð. Málið hafi farið inn á Alþingi en þingið ekki talið sig hafa heimild til að lækka laun forseta á miðju kjörtímabili.

„Forsetinn er nýbúinn að upplýsa forsætisráðherra um að hann hafi óskað eftir og fengið lækkun en að hún hafi ekki gengið yfir handhafana. Jóhanna hefur í framhaldinu ákveðið að óska eftir sambærilegri lækkun á sínum hlut þannig að hann verði sambærilegur og hjá forsetanum,“ segir aðstoðarmaður forsætisráðherra.- bj / sjá síðu 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×