Viðskipti erlent

Olíusjóðurinn með 1.800 milljarða í ruslbréfum

Norski olíusjóðurinn átti 84 milljarða norskra kr. eða rétt tæplega 1.800 milljarða kr. í ruslbréfum og öðrum áhættufjárfestingum um síðustu áramót. Þetta kemur fram í Finansavisen í dag.

Um er að ræða ríkisskuldabréf gefin út af ríkjum í suðurhluta Evrópu sem sett hafa verið í ruslflokk af matsfyrirtækjum. Þá kemur fram að eign Olíusjóðsins í spænskum og ítölskum ríkisskuldabréfum hefur vaxið um 2,9 milljarða norskra kr. eða um 60 milljarða kr., frá fyrsta ársfjórðungi ársins.

Finansavisen ræðir við hinn þekkta milljarðamæring og fjárfesti Öystein Stray Spetalen um málið sem segir að þetta skýrist af reynsluleysi starfsmanna Olíusjóðsins.

„Það er aðeins fólk með litla praktíska reynslu af fjármálamörkuðum, eins og starfsfólk sjóðsins, sem er viljugt til að taka svona áhættu,“ segir Spetalen. „Mín hugsun er að sjóðurinn eigi að kaupa eins öruggar eignir og hægt er. Hann á að kaupa skuldabréf í öruggum löndum. Sjóðurinn hefur hinsvegar verið upptekinn við að taka áhættu og hefur því keypt fullt af rusli sem skynsamt fólk heldur sig frá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×